Laugardagur 24.11.2012 - 15:27 - FB ummæli ()

Jákvæð saga úr hruninu

Maður í heita pottinum sagði við annan mann:

„Heyrðu, já, og ég þekki einn gamlan útgerðarmann, sem sagði mér sjálfur þessa sögu hér. Hann var búinn að selja allt sitt, enda orðinn roskinn, og fékk í sinn hlut 800 milljónir. Það var í raun fyrir hans ævistarf.

Reyndar var það ekki hann sjálfur sem sagði mér hver upphæðin hefði verið nákvæmlega, heldur heyrði ég hana frá öðrum í fjölskyldunni. Skip og hús og veiðarfæri voru nú ekki mikils virði, þetta var aðallega kvóti.

Nema hvað, hann kaupir hlutabréf í einum bankanna fyrir þessar 800 milljónir og ætlar að hafa það huggulegt í ellinni og búa í haginn fyrir erfingjana.

En svo er allt í einu hringt í hann. Það er gamall kunningi hans sem vinnur í einu útibúi sama banka og hann hafði keypt í. Og kunninginn segir honum að selja nú strax öll sín bréf og kaupa ríkisskuldabréf eða eitthvað álíka fyrir peningana. Bankinn sé alls ekki öruggur.

Nú, gamli útgerðarmaðurinn fer að þessum ráðum, og örskömmu seinna dynur hrunið yfir, bankinn fer á hausinn og allt hlutafé tapast. Og hann sagði mér þessi útgerðarmaður hrósaði happi sínu á hverjum einasta degi síðan hrunið varð. Hann mætti hreinlega ekki til þess hugsa hvað hefði gerst ef kunninginn hefði ekki hringt í hann.

Hann sagðist ekki vera viss um að hann hefði lifað það af, andlega, að tapa öllu ævistarfinu. Svo hann var nú heldur betur lukkunnar pamfíll. Það eru náttúrlega líka til svona jákvæðar sögur úr hruninu.“

„Já,“ sagði hinn maðurinn sem hafði hlustað á söguna. „Nema hvað tapið lenti þá auðvitað bara á einhverjum öðrum. Einhverjir aðrir hafa keypt þessi hlutabréf upp á 800 milljónir, einhverjir sem ekki voru svo heppnir að eiga innherja í bankanum að vini. Og kannski var það líka allt þeirra ævistarf sem tapaðist.“

„Ja, já, einmitt,“ sagði fyrri maðurinn. Svo var útrætt um það.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!