Fimmtudagur 13.12.2012 - 21:59 - FB ummæli ()

Elíta

Gunnar Helgi Kristinsson var í viðtali í Morgunblaðinu í morgun þar sem hann fann stjórnarskrárfrumvarpinu flest til foráttu.

Það er nú það. Hann hefur að sjálfsögðu fullan rétt á sinni skoðun. Og sumar af athugasemdum hans eru alveg markverðar. Það hefði að vísu verið gagnlegra ef hann hefði komið fram með þær ögn fyrr.

Mig minnir nefnilega fastlega að Gunnar Helgi Kristinsson hafi verið einn þeirra sem við í stjórnlagaráði reyndum að fá til að gera athugasemdir við okkar starf áður en við lukum verki okkar við þetta frumvarp.

Hann sagði nei, hann mætti bara ekki vera að því – hann þyrfti að útbúa stundaskrár fyrir nemendur sína í háskólanum.

Ójá, svo er nú það.

Ég ætla ekki hér og nú að svara efnislega athugasemdum Gunnars Helga. Þið verðið bara að fyrirgefa mér það. Það hafa nefnilega margir svarað þessu nú þegar – og raunar löngu áður en Gunnar Helgi fór í viðtalið við Moggann.

Allar þessar athugasemdir hafa nefnilega sést áður, þó hann hafi ekki séð sér fært að upplýsa okkur um álit sitt fyrr en nú.

Og þó.

Tvennt var það í þessu viðtali sem mér fannst nokkrum tíðindum sæta – komandi frá svona ljóngáfuðum og hámenntuðum manni og þar á ofan af þeim kalíber sem prófessor við Háskóla Íslands er óneitanlega.

Í fyrsta lagi dæmafár hroki prófessors Gunnar Helga í garð félaga minna í stjórnlagaráði þegar hann hellir sér yfir „fræga fólkið“ sem þar hafi setið.

Ég læt sjálfan mig vera. Sjálfsagt telst ég til „fræga fólksins“. En þau félagar mínir í stjórnlagaráði voru gott og gáfað fólk af öllu tagi og af öllum stigum þjóðfélagsins og hafði unnið af eldmóði að bættu samfélagi.

Mörg þeirra áratugum saman.

Þau höfðu svo sannarlega unnið fyrir því að fá að véla um grundvallaratriði samfélagsskipunar okkar.

Og áttu ekki skilið þessa skítapillu prófessorsins.

Svei mér þá – ég held meira að segja að í stjórnlagaráði hafi setið fáeinir sem hafi kannski gert þessu samfélagi okkar jafnvel enn meira gagn gegnum tíðina en sjálfur Gunnar Helgi Kristinsson!

Í öðru lagi, þá datt næstum af mér andlitið þegar ég las þessa setningu hér, þar sem Gunnar Helgi lýsir fulltrúalýðræði eins og hann vill greinilega hafa það:

„Það þýðir að ákveðin elíta hefur það starf að kynna sér mál, vinna þau og bera ábyrgð á þeim gagnvart kjósendum.“

Ég tek það fram að orðið „elíta“ er ekki frá mér komið. Gunnar Helgi Kristinsson sagði það sjálfur í viðtalinu við Moggann.

Prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.

„… ákveðin elíta hefur það starf …“

Baráttan gegn auðlindaákvæðinu í stjórnarskrárfrumvarpinu er á fullu í Mogganum og flestir sótraftar greinilega á sjó dregnir.

En að menn eins og Gunnar Helgi opinberi „elítu-hugarfar“ svona blygðunarlaust, á því átti ég ekki von. En lengi má manninn reyna.

Ómar Ragnarsson tekur Gunnar Helga til bæna hér.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rásHleð...

Eingöngu gamlar fréttir!