Fimmtudagur 13.12.2012 - 09:48 - FB ummæli ()

Fax-fullveldi

Það hefur alltaf verið nokkuð þung undiralda gegn Evrópusambandinu í breska Íhaldsflokknum. Burtséð frá ýmsum efnahagspólitískum ástæðum er ástæðan líka gremja yfir því að hið gamla heimsveldi skuli nú þurfa að líta á önnur ríki og „smærri“ sem jafningja, og deila með þeim leifunum af áhrifavaldi sínu.

Þessi undiralda hefur þyngst á síðustu árin, nú þegar Evrópusambandið gengur í gegnum ýmislegt mótlæti, og David Cameron forsætisráðherra hefur gefið andstæðingum ESB undir fótinn á ýmsan hátt. Enda þarf hann að gæta þess að missa ekki of mikið fylgi til breska Sjálfstæðisflokksins sem berst ákaft gegn ESB af hægri vængnum.

Þeim mun merkilegri er sú yfirlýsing Camerons að Bretar ættu ekki undir nokkrum kringumstæðum að ganga úr Evrópusambandinu. Því ef þeir gengju úr sambandinu en hefðu í staðinn við það einskonar EES-samband, þá þýddi það að í Bretlandi yrði tekið upp „fax-lýðræði“ eins og til dæmis í Noregi.

Það þýðir að stærstur hluti nýrra laga kæmi einfaldlega með faxi frá Brussel og Bretar fengju ekkert um þau að segja. En sú er núna raunin um Noreg.

Andstæðingar ESB á Íslandi tala stundum eins og ríkin þar búi ekki við fullveldi, heldur séu þau ofurseld hinu illa valdi ESB. Og þeir hafa litið hróðugir í bragði til Noregs þar sem fullveldisástin sé svo rík og áköf að Norðmenn hafi tvívegis fellt ESB-aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það er því óneitanlega merkilegt að sjá að jafnvel efasemdarmaður í ESB-málum eins og Cameron er óneitanlega skuli líta svo á að fullveldi Breta sé betur tryggt innan ESB en utan þess.

Og að hinir öflugu Norðmenn skuli búa við „fax-lýðræði“ meðan þeir séu utan Evrópusambandins, hvað sem líður öllum þeirra olíu-auði.

Þetta er merkilegt vegna þess að við Íslendingar erum auðvitað í nákvæmlega sömu stöðu og Norðmenn. Við fáum stóran hluta af lögum okkar sendan frá Brussel og höfum ekkert um þau að segja.

En það telja andstæðingar ESB samt til marks um „fullveldi“ og vilja meira að segja kalla sig eina „fullveldissinna“. Í því felst þá að þeir sem geta hugsað sér að ganga í ESB, þar sem Íslendingar fengju þó að minnsta kosti einhver (og í sumum tilfellum töluverð) áhrif á lagasetninguna, þeir meti einskis fullveldið.

Cameron er greinilega ekki á sömu skoðun.

Hann telur sjónarmið hinna íslensku ESB-andstæðinga augljóslega ígildi þess að þeir aðhyllist „fax-fullveldi“.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!