Mánudagur 17.12.2012 - 19:13 - FB ummæli ()

Allskonar ósköp

Mér er vissulega málið ögn skylt en ég ætla að leyfa mér að vekja athygli á skemmtilegri og töluvert merkilegri bók sem kemur út nú fyrir jólin.

Það er Svarta bókin, safn frásagna um allskonar ósköp sem dunið hafa yfir mannkynið – fyrst og fremst af eigin völdum.

Það má eiginlega segja að þetta séu hálfgerðar hryllingssögur, en þó bæði sannar og skrifaðar þannig að engum þarf að blöskra. Þvert á móti eru þær skrifaðar af alúð og jafnvel dálitlum húmor þar sem það á við.

Kolbrún Bergþórsdóttir sagði í Morgunblaðinu um bókina: „Fjölmargar … sögur um myrkar hliðar mannlífsins eru raktar í læsilegri, spennandi og hrollvekjandi bók sem þeir fróðleikfúsu lesa upp til agna.“

Og það eru orð að sönnu. Þarna er sagan um byssubófann í villta vestrinu, sem var breytt í skó eftir dauða sinn, um japönsku kommúnistana sem bjuggu sér til sitt eigin ömurlega einræðisríki, um einhvern dularfyllsta glæpinn í sögu Þýskalands, um mannætuljónin sem réðust gegn breska samveldinu, um fyrsta þjóðarmorðið í Afríku sem fáir vita nú um, um flokk rússneskra fjallgöngumanna sem fórust allir af svo dularfullum ástæðum að það var flokkað sem ríkisleyndarmál í áratugi …

Og er þá fátt eitt talið.

Það er alveg rétt að þeir fróðleiksfúsu og þeir sem vilja kynnast ýmsum hliðum mannlífsins og líka þeim myrku, þeir munu lesa þessa bók upp til agna.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!