Miðvikudagur 19.12.2012 - 21:45 - FB ummæli ()

Gísli á Uppsölum

Það allra óvæntasta í því jólabókaflóði sem brátt sér fyrir endann á er vitaskuld ótrúleg velgengni bókarinnar um Gísla á Uppsölum eftir Ingibjörgu Reynisdóttur.

Það er óhætt að segja að bókin hafi hitt Íslendinga í hjartastað.

Ég skal fúslega viðurkenna að áður en ég las bókina var ég ekki alveg viss um erindi hennar.

En eftir að hafa lesið hana var mér það ljóst.

Þetta er harmsaga um mann sem einangrast gjörsamlega af ýmsum ástæðum, og lifir síðan ótrúlegu lífi. Þótt einelti sem hann varð fyrir vegi þar þungt er alls ekki dregin fjöður yfir aðrar ástæður, hvorki ytri né innri.

Og lýsingin á því hvernig lífi Gísli lifði er sterk. Reynum að ímynda okkur hvernig hann kúrði í niðdimmum og köldum bæ sínum mánuðum saman án þess að hitta eða tala við eina einustu manneskju. Mann eiginlega sundlar við tilhugsunina.

Samt náði hann að þroska huga sinn, lifa vitsmunalífi, yrkja ljóð og hugleiða hin dýpstu rök tilverunnar.

Og þegar skyggnst var bak við hrjúft yfirbragð hins sérviskulega einsetumanns, þá birtist í skeggi hans hans fallegt og feimnislegt bros, og undan hattkúfnum fræga blikaði glettni í augnaráðinu.

Það er þetta sem Ingibjörg Reynisdóttir sýnir svo vel í sínum einfalda og einlæga texta í bókinni um Gísla á Uppsölum.

Þetta er ekki vísindaleg ævisaga heldur samantekt um líf einnar manneskju, og hún er unnin af bæði hlýju og vandvirkni. Þess vegna hefur hún slegið í gegn. Og þess vegna völdu bóksalar hana bestu ævisögu ársins, þótt af mörgum góðum bókum væri að taka.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!