Þriðjudagur 25.12.2012 - 16:37 - FB ummæli ()

Örlög og tilviljanir

Í fyrradag var ég að skauta um netið til að undirbúa útlandabloggið mitt á Pressunni. Þá rakst ég á frásögn um Joachim Peiper, þýskan SS-herforingja sem framdi stríðsglæpi í seinni heimsstyrjöldinni en saup seyðið af því 30 árum eftir stríðslok.

Þá var hann búsettur í Frakklandi og fyrrum andspyrnumenn gegn þýska hernámsliðinu kveiktu í húsinu hans og brenndu hann inni.

Þetta var allt ansi forvitnilegt og þegar ég fór að lesa um Peiper þennan rakst ég til að mynda á frásögn um aðild hans að fjöldamorðinu í Malmedy. Það var smáþorp í Belgíu þar sem Peiper og menn hans drápu 80 bandaríska stríðsfanga þann 17. desember 1944. Aðeins örfáir Bandaríkjamenn komust undan morðæði þýsku SS-mannanna.

Eftir stríð voru Peiper og fleiri dæmdir fyrir dauða fyrir aðild sína að fjöldamorðunum, en dauðadómunum var breytt í lífstíðarfangelsi. Talið var að upprunalegu réttarhöldin hefðu verið gölluð, vitnisburður hefði í sumum tilfellum náðst fram með pyntingum o.fl.

Peiper sat inni í 11 ár en var þá látinn laus. Hann fékk um tíma gott starf hjá Porsche-bílaverksmiðjunum, en varð að hverfa úr því þegar andúð vegna stríðsglæpa hans kom upp á yfirborðið.

Að lokum urðu fyrrum franskir andspyrnumenn honum sem sé að bana.

Þetta var ég sem sé að skoða af einhverri rælni í fyrradag. Kannski skrifa ég nánar um þetta einhvern tíma.

En í bili er ég að nefna þess vegna þess að ég fór áðan að lesa frétt í netútgáfu New York Times um andlát leikarans Charles Durning. Hann dó í gær 89 ára gamall.

Nafn Durnings er ekki mjög þekkt en á árunum 1970-90 lék hann stór aukahlutverk í fjölda ágætra mynda og stóð sig alltaf vel. Hann var einn þeirra leikara sem urðu manni eftirminnilegir þótt hann yrði aldrei það sem kallað er „stjarna“.

Og mér til heilmikillar undrunar les ég þar að Charles Durning var einmitt einn þeirra sárafáu bandaríska hermanna sem komust lífs af undan Peiper og mönnum hans í Malmedy árið 1944, eða fyrir 68 árum – nánast upp á dag.

Furðuleg tilviljun – en Durning, sá viðkunnanlegi leikari, varð reyndar fyrir djúpum sárum, bæði andlega og líkamlega, í seinni heimsstyrjöldinni þótt hann slyppi lífs undan Joachim Peiper.

Hann sagði einu sinni svo frá: „Ég var á leiðinni yfir akur einhvers staðar í Belgíu. Þýskur hermaður hljóp í áttina að mér með byssusting á lofti. Hann getur ekki hafa verið meira en 14 eða 15 ára. Ég sá engan hermann. Ég sá bara smástrák. Þó hann stefndi beint á mig gat ég ekki skotið hann.“

Í staðinn reyndi Durning, sem þá var 21s árs að aldri, að ná byssustingnum af drengnum. Þeir slógust lengi og Durning var stunginn sex eða sjö sinnum og var illa særður. Loks náði Durning taki á steini og notaði hann sem vopn. Hann sló frá sér og drap þýska piltinn.

Eftir að hafa orðið honum að bana sat hann lengi með lík drengsins í fanginu og grét.

Þetta er Durning:

Þetta er aftur á móti Joachim Peiper:

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!