Þriðjudagur 01.01.2013 - 18:49 - FB ummæli ()

Hlakka til að fá liðsinni Ólafs Ragnars

Ólafur Ragnar Grímsson fjallaði meðal annars um frumvarpið að nýrri stjórnarskrá í ágætu nýársávarpi sínu frá Bessastöðum.

Hann sagði þar kost og löst á frumvarpinu frá sínum sjónarhóli, og eftirfarandi orð glöddu mig sérstaklega:

„Góðar hugmyndir birtust svo í tillögum stjórnlagaráðs og njóta margar víðtæks stuðnings. Ný ákvæði um rétt þjóðarinnar til að krefjast atkvæðagreiðslu um hin stærstu mál, ótvíræð þjóðareign á auðlindum, aukið sjálfstæði dómstóla og víðtækari mannréttindi – allt er þetta og margt annað til bóta.“

Ég hefði vissulega haft gaman af því að hann tjáði sig nokkru ítarlega um þetta, því það er mála sannast að sum bestu ákvæðið í stjórnarskrárfrumvarpinu – svo sem einmitt um þjóðareign á auðlindum og víðtækari mannréttindi – sæta furðu miklum aðfinnslum úr ýmsum áttum.

Það hefði aldeilis ekki verið ónýtt að fá skýrara liðsinni Ólafs Ragnars Grímssonar í baráttunni fyrir þeim.

Til dæmis og ekki síst auðlindaákvæðinu.

En hann tjáir sig þá væntanlega bara betur um það – og mannréttindaákvæðin – síðar.

Í staðinn fór hann að þessu sinni fleiri orðum um það, sem hann gerir athugasemdir við – en það laut fyrst og fremst að hinni æðstu stjórnskipan landsins.

Ekki þarf í sjálfu sér að koma á óvart þótt hann sé ekki endilega sammála öllu sem fram kemur í stjórnarskrárfrumvarpinu.

Ólafur Ragnar er jú menntaður stjórnmálafræðingur, og hefur staðið í fremstu röð í pólitískri baráttu í áratugi. Auðvitað hafa slíkir menn hver sína sýn á það hvernig best er að haga stjórnskipaninni.

Í stjórnlagaráði – þar sem grundvöllur var lagður að frumvarpinu – voru líka mjög skiptar skoðanir lengi vel. Öll þau sjónarmið sem Ólafur Ragnar nefndi í áramótaboðskap sínum komu til dæmis vel fram í umræðum í stjórnlagaráði.

Í ráðinu sat nefnilega ekki fyrst og fremst fólk „á grundvelli fjölmiðlafrægðar“ eins og stundum er gefið í skyn og bersýnilega er talið afar varasamt.

Þar sátu einnig virtir og hámenntaðir sérfræðingar – stjórnmálafræðingar, lögfræðingar, hagfræðingur, stærðfræðingar, heimspekingur og ýmsir aðrir fullgildir fulltrúar fræðasamfélagsins.

Þá hafði ráið sér til aðstoðar hóp valinkunnra lögfræðinga og leitaði ráða hjá heilmörgum sérfræðingum af ýmsu tagi. Og það naut góðs af vönduðu undirbúningsstarfi stjórnlaganefndar þar sem sátu líka vandaðir sérfræðingar, flestir lögfræðingar.

Það kom fljótlega í ljós að sérfræðingarnir voru alls ekki á einu máli um hvernig haga bæri ákvæðum um breytingar á stjórnskipan Íslands. Skoðanir þeirra voru mjög skiptar. Athugasemdir þeirra við störf stjórnlagaráðs voru, og eru, nefnilega alls ekki allar samhljóða, öðru nær.

Það var hins vegar verkefni stjórnlagaráðs að fjalla um allar hinar ólíku hugmyndir og tala sig saman að góðri niðurstöðu sem allir gátu verið ánægðir með.

Og það gerði stjórnlagaráð með svo ágætum árangri að allir 25 stjórnlagaráðsmenn greiddu tillögum ráðsins atkvæði sitt að lokum.

Á leiðinni þangað hafði semsé verið fjallað oft og ítarlega um allar þær hugmyndir og aðfinnslur og gagnrýnisefni sem síðan hafa komið fram. En leið stjórnlagaráðs varð einfaldlega ofan á.

Þannig tókst loks að klára það verk sem íslenskir stjórnmálamenn hafa reynst ófærir um í áratugi, þrátt fyrir góðan og margyfirlýstan vilja þeirra til að skrifa nýja stjórnarskrá fyrir Ísland.

Með þessu á ég ekki við að niðurstaða stjórnarskárfrumvarpsins sé endilega fullkomin, eða hin eina rétta.

En ég fullyrði hins vegar að aðkoma sérfræðinganna í og á snærum stjórnlagaráðs, og alveg sérstaklega sú aðgæsla sem sumir í ráðinu tóku að sér (með góðum árangri) að sýna gagnvart öllu sem virtist nokkur minnsti glannaskapur – þetta fullyrði ég að hafi valdi því að í stjórnarskrárfrumvarpinu er ekkert ískyggilegt á ferðinni.

Nei, stjórnskipunarkaflinn er greinilega ekki skrifaður eins og Ólafur Ragnar Grímsson hefði helst kosið – það er auðvitað leiðinlegt, en þessi kafli er samt ekkert hættulegur.

Eina lexíu lærðum við í stjórnlagaráði.

Að semja um niðurstöðu í flóknum málum, og kyngja niðurstöðunni þótt hún væri ekki alltaf í fullkomnu samræmi við prívatskoðanir hvers og eins. Og stökkva ekki til og láta eins og himinn og jörð myndu farast, þótt við fengjum ekki allt okkar fram.

Þau vinnubrögð leyfi mér að fullyrða að hafi verið til eftirbreytni, og það voru þau gerðu okkur kleift að leggja þann grundvöll að nýrri stjórnarskrá sem Alþingi fjallar nú um og mun væntanlega afgreiða fyrr en síðar.

Sá grundvöllur er áreiðanlega ekki fullkominn. En ég held samt að hann sé bara býsna góður, og ég held sérstaklega að hann sé miklu betri en sú stjórnarskrá sem við búum nú við – líka stjórnskipunarkaflinn, sem er sannarlega ekkert hættulegur – og ég hlakka til að fá liðsinni Ólafs Ragnars Grímssonar við að berjast fyrir auðlindaákvæðinu, auknum mannréttindum og öðru því sem til bóta er.

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!