Laugardagur 19.01.2013 - 15:58 - FB ummæli ()

Líka fyrir framsóknarmenn og sjálfstæðismenn

Hörður Torfason stóð fyrir útifundi á Austurvelli áðan þar sem Alþingi var hvatt til að afgreiða nýju stjórnarskrána. Þrátt fyrir að ekki viðraði vel til útifunda var þarna góður hópur af fólki samankominn. Ég flutti eftirfarandi pistil:

Gott fólk.

Hér erum við aftur samankomin, líkt og veturinn fyrir fjórum árum þegar stjórnvöld í landinu ætluðu að hunsa kröfu svívirtrar þjóðar um að þau hypjuðu sig frá völdum – eftir að hafa, ásamt næstu stjórnum á undan, lagt hér allt í rúst, og valdið hér svo miklu og snöggu efnahags- og siðferðishruni að þess eru fá dæmi í sögunni.

Samt sáu stjórnvöldin enga ástæðu til að þau færu frá, nei, raddir fólksins skyldu að engu hafðar, fólkið átti ekki að vera með puttana í þessu, látum sérfræðingana um að stjórna, farðu heim, alþýða, þú hefur ekkert vit á þessu.

En gott fólk, það tókst um síðir að leiða hinni óhæfu ríkisstjórn fyrir sjónir að hún gæti ekki og mætti ekki stjórna lengur, hún hefði enga siðferðilega burði til þess, hún yrði að fara frá.

Það tókst með því að standa hér á Austurvelli á útifundum mánuðum saman, efla samstöðu og samhug, sýna fram á að svívirt fólk lætur ekki bjóða sér hvað sem er.

Og nú stöndum við hér aftur. Tilgangurinn er svolítið annar, formerkin ólík, en það er samt ýmislegt skylt með þessum fundi, og þeim sem við mættum hér á fyrir fjórum árum.

Aftur höfum við uppi kröfur á hendur stjórnvöldum, nú gegn sjálfu Alþingi frekar en endilega ríkisstjórninni, nú gegn stjórnarandstöðunni ekkert síður en stjórnarflokkunum – þær kröfur að þingið afgreiði án umtalsverðra tafa það frumvarp að nýrri stjórnarskrá sem nú hefur verið lagt fram, eftir langan og merkilegan undirbúning, frumvarp sem er reyndar einn helsti afraksturinn af öllum fundahöldunum okkar hérna fyrir fjórum árum síðan.

Þessi nýja stjórnarskrá er vafalaust ekki fullkomið plagg – ekkert plagg er alveg alfullkomið – og endilega, ef hægt er að betrumbæta orðalag og skýra merkingu, þá gerið það, en drífið í því, því það er þrátt fyrir allt ekkert svo flókið, en ekki fara að fabúlera og fjargviðrast um hvert einasta smáatriði, sem flestöll eru reyndar löngu útrædd – ekki eyða tímanum bara til þess eins að eyða tímanum, svo ekki verði neitt úr neinu.

Það mun nefnilega ekki gleymast svo glatt, ef þau vinnubrögð verða ofan á. Því þótt hún sé kannski ekki fullkomin, þá eru þó í þessari nýju stjórnarskrá svo miklar umbætur fyrir okkur – fólkið í landinu – að það hlýtur að vera sjálfsögð krafa að hún fái að koma, efnislega óbreytt, í stað þeirra gömlu og úreltu sem Alþingi og öllum sérfræðingum þess hefur ekki tekist að betrumbæta svo miklu nemi í sjötíu ár.

Af hverju skyldi það aldrei hafa tekist? Jú, alveg áreiðanlega vegna þess að þeir sem settir voru til verksins ráku sig alltaf á hagsmuni einhverra valdastétta eða valdablokka – það mátti ekki hrófla við valdinu, klíkunum og hinum makráðu valdsherrum við kjötkatlana – því var ekkert gert.

En um stjórnlagaráð, sem lagði með fyrirsögn frá þjóðfundi og dyggri aðstoð sérfræðinga og ekki síst fólksins í landinu, grunninn að hinni nýju stjórnarskrá – um það má segja að hvað sem öðru líður og hvaða skoðun sem menn hafa á því ráði, þá settust stjórnlagaráðsmenn á rökstóla til að semja betri grunnlög fyrir fólkið í landinu, allt fólkið í landinu, ekki fyrir hagsmunaaðila, ekki fyrir valdastéttirnar, og ekki fyrir klíkurnar.

En að við þurfum svo að koma hér saman á útifund til að heimta fullnaðar-afgreiðslu málsins af alltof tregu Alþingi, það er vissulega ansi sorgleg staðreynd.

Gott fólk.

Ég skil ekki þann andróður sem stjórnarskrárfrumvarpið hefur lent í á þinginu.

Ég hreinlega skil hann ekki. Ég botna ekki í því af hverju allur þorri þingmanna í þinghúsinu hér við Austurvöll er ekki akkúrat núna ískrandi kátur að ganga kannski frá nokkrum lausum endum við þetta frumvarp, snurfusa svolítið orðalagið svo það verði enn skýrara og betra, en fyrst og fremst, af hverju eru þingmennirnir ekki nú þegar að búast til atkvæðagreiðslu um þetta frumvarp, sem mun marka tímamót í sögu þjóðarinnar.

Þegar hún fær nýja stjórnarskrá sem verður svo miklu miklu betri en sú gamla.

Ég skil ekki og mun aldrei skilja af hverju nánast hver einn og einasti þingmaður telur sig ekki fullsæmdan af því að taka þátt í því verki, sem þó hefur farið fram í einu og öllu samkvæmt ákvörðun Alþingis sjálfs, og hlaut síðan skýra blessun þjóðarinnar í almennri atkvæðagreiðslu í október síðastliðnum.

Nei, ég skil ekki af hverju þingmenn telja sig ekki fullsæmda af því að taka þátt í þessu. Mér finnst jafnvel að þeir ættu fremur að líta á það sem nokkurt hrós í sitt heldur snjáða hnappagat að geta greitt atkvæði nýrri stjórnarskrá, sem samin var í fylgd þjóðarinnar sjálfrar, og á þann hátt að vakið hefur athygli og aðdáun langt út fyrir landsteinana.

Það má alveg fylgja sögunni, það er því miður ekki of oft sem eitthvað úr íslenskri stjórnsýslu þykir afreksverk í útlöndum.

En nei, svona líta ekki allir þingmenn á málið, því miður. Furðulega stór hluti þingmanna virðist ekki sjá sóma sinn og skyldu í því að fara að skýrri niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar í október síðastliðnum.

Sá hluti þingmanna situr ekki við borðið sitt glaðbeittur að ljúka við að snurfusa þetta og gera hvaðeina sem verða má til að frumvarpið verði sem fyrst að lögum.

Nei, þessi hluti þingmanna segist þurfa að ræða um málið alveg frá grunni, eins og það hafi aldrei dúkkað upp áður, þetta sé allt alveg gjörsamlega órætt – og muni kosta langar ræður og þung andsvör.

Þessi hluti þingmanna ætlar augljóslega að gera hvaðeina sem hann getur til að tefja málið og stöðva.

En hið skammarlega málþóf sem orðið er plagsiður á þingi, og er svo átakanlegt merki um hversu brýnt það er að bæta stjórnsýsluna í þessu landi – bæta hana og svo margt fleira, eins og líka er ætlunin að gera með nýju stjórnarskránni – það málþóf má ekki stöðva umbæturnar sem nýja stjórnarskráin hefur í för með sér.

Og ég skil ekki, ég botna bara ekki í því að talsverður hluti þingmanna, sem eiga að vera fulltrúar þjóðarinnar, skuli ætla að láta um sig spyrjast að eitt helsta afrek þeirra á þingi hafi verið að leggja stein í götu nýrrar og betri stjórnarskrár.

Stjórnarskrár sem hefur vantað svo undarlega lengi.

Og eins og ég drap á áðan: það eru einmitt þingmenn á Alþingi Íslendinga hafa reynst algjörlega ófærir um að semja slíkt plagg frá grunni, og einmitt þeir fræðimenn sumir – bara sumir – sem nú geta ekki til þess hugsað að hér taki gildi stjórnarskrá sem þeir hafi ekki sjálfir vélað um – og það þótt þeim hafi reyndar verið boðið að taka þátt í ferlinu.

Núna, einmitt núna þegar það er loksins búið að semja nýja stjórnarskrá, þá skulu lappirnar dregnar.

Stjórnarskrá sem ég ítreka enn að er alveg ágætis plagg, og mun verða til mikilla bóta í samfélaginu.

Og það er líka nauðsynlegt halda því til haga og leggja reyndar á það þunga áherslu, að þótt margvíslegar athugasemdir hafi vissulega komið fram við nýju stjórnarskrána, eins og eðlilegt má heita – þá er þar fyrst og fremst um að ræða allskonar smekksatriði hér og vangaveltur þar – á þetta að vera svona eða ætti það að vera hinsegin? – en það hefur enginn, ég fullyrði það, enginn hefur sýnt fram á með sannfærandi rökum að það séu einhverjir alvarlegir byggingargallar í frumvarpinu, eitthvað sem hættulegt getur kallast fólkinu í landinu, og lýðræðinu í landinu.

En sem sé núna, einmitt núna, þegar þessi stjórnarskrá er komin fram og ekki eftir mörgu að bíða að afgreiða hana, þá koma menn sumsé fram í dagsljósið – menn sem sjá ekkert nema meinbugi á ferlinu.

Núna er til dæmis allt í einu einstaklega ómerkilegt að það skuli hafa verið haldinn þjóðfundur, núna heitir þessi þjóðfundur, sem er öfundarefni annarra þjóða – núna heitir hann föndur með gula miða.

Og núna heitir stjórnlagaráð, þar sem mjög ólíkir einstaklingar komu saman og náðu ótrúlegt nokk samhljómi og samstöðu þrátt fyrir erfið og flókin ágreiningsmál – núna heitir það snakksamkoma nokkurra einsleitra miðborgarbúa úr Reykjavík – sem er þó svo gjörsamlega fjarri sanni.

Og sumir telja sig meira að segja sjá í nýju stjórnarskránni þá stórkostlegu ógn við lýðræði í landinu að hún feli í sér alltof mikið lýðræði í landinu!

Ég skil ekki þessi viðbrögð, og ég mun aldrei skilja þau. Nýja stjórnarskráin mun auðvitað ekki leysa öll mál á Íslandi í einni svipan.

Fjarri því. En hún mun bæta stjórnsýsluna, hún mun bæta upplýsingagjöf og gegnsæi í kerfinu, hún mun auka lýðræði í landinu, gera bæði stjórnvöld og almenning ábyrgari, hún mun gera mjög auknar kröfur um fagleg vinnubrögð, hún mun skýra og skilgreina réttindi fólksins, ekki síst þeirra sem minnst mega sín – hún mun kveða skýrt á um hin ýtrustu mannréttindi – hún mun verða til að vernda betur viðkvæma náttúru okkar og umhverfi – hún mun taka af skarið um að sameiginlegar auðlindur eru og verða í eigu þjóðarinnar allrar.

Og þar er kannski kominn mergurinn málsins og helsta skýringin á þeim undarlega mótbyr sem nýja stjórnarskráin hefur mætt – það eru sterk öfl í samfélaginu sem vilja ekki auðlindir í þjóðareigu, og eru til í að berjast til síðasta blóðdropa til að það verði ekki að veruleika.

En eigum við að leyfa þeim að ráða því?

Af því ég átti örlítinn þátt í að semja þessa nýju stjórnarskrá er ég þrátt fyrir allt svolítið feiminn við að lofa hana alltof mikið og prísa, eins og ég hef þó gert í þessari tölu, en það er enginn vafi – það samfélag sem styðjast mun við nýju stjórnarskrána verður betra, óspilltara og opnara en það þjóðfélag sem var hér í rústum fyrir fjórum árum síðan – það verður betra, ég skal lofa ykkur því persónulega – og það verður betra og heilbrigðara fyrir okkur öll.

Líka fyrir framsóknarmenn og líka fyrir sjálfstæðismenn.

Að minnsta kosti fyrir alla almenna framsóknarmenn, hvar sem er á landinu sem þeir búa, og alla almenna sjálfstæðismenn, hvar í stétt sem þeir standa – kannski helst sægreifarnir undanskildir, kannski fá þeir ekki alveg eins frjálsar hendur um okkar eigur.

Fyrir allan almenning hvar í stétt og flokki sem fólk stendur verður nýja stjórnarskráin hins vegar svo miklu betri en sú gamla.

En ýmsir útsendarar og viðhlæjendur hinna gömlu valdhafa eru þá komnir upp á afturlappirnar og vilja halda í hið gamla og kunnuglega valdakerfi, sem þeir kunna á, sem þeir mótuðu sjálfir, sem þeir vilja fá að ríkja áfram yfir, rétt eins og fyrrum þegar ríkið, það voru þeir.

En ríkið er ekki þeir, ríkið er fólkið í landinu, við öll, og við höfum þegar lýst skoðun okkar – já, við gerðum það með þátttöku í því ferli sem skóp nýju stjórnarskrána, við gerðum það í þjóðaratkvæðagreiðslunni í október, og með fullri og alveg hyldjúpri virðingu fyrir alþingismönnum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, þá eigum við að fá að ráða þessu – ekki þeir. Því ríkið, það eru ekki þeir.

Ríkið er við, og þetta er stjórnarskráin okkar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!