Mánudagur 21.01.2013 - 10:43 - FB ummæli ()

Þjóðsaga verður til

Þjóðsögur eru eðli málsins samkvæmt yfirleitt sprottnar upp á fyrri tíð og sjaldnast vitum við hvenær þær urðu til eða hverjir hleyptu þeim fyrst af stokkunum.

Það er hins vegar skemmtilegt að fá að verða vitni að sköpun nýrrar þjóðsögu.

Nú er nefnilega að verða til þjóðsagan um „hið veika íslenska flokkakerfi“. Það hversu veikt íslenska flokkakerfið sé beri í sér rót flestra vandamála okkar, og einkum og sér í lagi hrunsins.

Yfirleitt fylgir sögunni að hinar hógværlegu tillögur í nýja stjórnarskrárfrumvarpinu um möguleika á svolítið auknu persónukjöri séu einmitt stórvarasamar, af því þar með veikist hið veika íslenska flokkakerfi enn.

Og íslensk pólitík verði líklega ofurseld frægu sjónvarpsfólki úr 101 Reykjavík, eins og stundum fylgir sögunni.

Rétt eins og hið veika íslenska flokkakerfi náði ekki að standa gegn útrásarvíkingunum vondu. Betur að það hefði verið mun sterkara!

Þessi þjóðsaga, sem nú er að verða til, er merkileg af því hún er röng.

Íslenska flokkakerfið hefur aldrei veikt verið. Þvert á móti hefur það verið firna öflugt og lagt lamandi hönd sína yfir allt íslenskt þjóðlíf, bæði fyrr og síðar.

Það er nú ekki eins og það hafi farið mikið milli mála gegnum tíðina.

Þau áhrif sem útrásarvíkingar og bankamenn náðu hér, þau náðust ekki vegna þess að flokkakerfið væri svo veikt, heldur vegna þess að flokkakerfið var svo sterkt.

Það var (og er) beinlínis allsráðandi.

Og þeir kaupsýslubankavíkingar voru skilgetin afkvæmi íslenska flokkakerfisins.

Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson gátu ekki fært vildarvinum sínum íslensku bankana af því þeir voru svo persónulega vinsælir, þótt Davíð hafi vissulega verið vinsæll á sínum tíma.

Heldur vegna þess að þeir höfðu flokksmaskínur sem lágu yfir samfélaginu eins og mara og réðu bókstaflega öllu, og þeir voru sjálfir afsprengi hins gríðarsterka íslenska flokkakerfis.

Nei, ég held það sé engin ástæða til að hafa þungar áhyggjur af lýðræði í landinu þótt fólk fái að hafa örlítið meira um það að segja hverjir setjist á Alþingi.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!