Þriðjudagur 05.02.2013 - 10:04 - FB ummæli ()

Töffarar FBI mæta í smábæinn Reykjavik, Iceland

Við þekkjum þetta svosem úr ótal amerískum bíómyndum.

Glæpur hefur verið framinn í smábæ eða þorpi og löggan á staðnum er að glíma við málið.

Þá birtast heldur betur töffaralegir FBI-menn og taka yfir rannsóknina, oft í óþökk heimamanna.

Kannski FBI-menn sjálfir séu búnir að horfa á of mikið af bíómyndum af þessu tagi.

Að minnsta kosti virðast þeir hafa talið sér heimilt að koma askvaðandi í smábæinn Reykjavik, Iceland og taka yfir rannsóknina á …

Ja, rannsóknina á hverju?

Það er nú það.

Það er mikil og stór spurning.

Þessi heimsókn FBI hingað til lands virðist vera hið dularfyllsta mál.

Það fer eiginlega að verða nauðsynlegt að fram fari rannsókn á þessari rannsókn sem Alríkislögreglan ameríska taldi sér heimilt að standa fyrir hér í fásinninu.

Og skýringar ríkislögreglustjóra og ríkissaksóknara, sem birtust í yfirlýsingu þeirra í gær, urðu nú ekki beinlínis til að skýra málið.

Enda hafnar Össur Skarphéðinsson þeim algjörlega í Fréttablaðinu í morgun.

Ögmundur Jónasson svarar fáu ennþá, enda er hann í Kína.

(Meðal annarra orða – hvað eru innanríkisráðherra og allir æðstu menn ráðuneytis hans að gera í Kína? Hvað geta þeir lært í innanríkismálum í Kína?)

Eru ríkislögreglustjóri og ríkissaksóknari bara að bulla einhverja vitleysu til að breiða yfir eitthvert furðulegt samkrull sitt við FBI?

Smábæjarlöggæslan í Reykjavik, Iceland að reyna að afsaka að hafa látið töffarana frá USA vaða yfir sig?

Það er að minnsta kosti sú spurning sem vaknar.

Þetta þarf að upplýsa.

Og úr því fréttamenn munu sjálfsagt spyrja Ögmund spjörunum úr um þetta mál, þegar hann kemur frá Kína, þá mætti kannski bæta við einni spurningu.

Ríkislögreglustjórinn … hann heitir sem kunnugt er Haraldur Johannessen og er vægast sagt umdeildur maður.

Þetta er ekki fyrsta málið sem vekur furðu og Haraldur kemur nálægt.

Spurningin er þessi:

Hvernig stóð á því að fyrir aðeins örfáum vikum framlengdi Ögmundur Jónasson skipun hans í embætti í fimm ár enn í stað þess að nota tækifæri og auglýsa stöðu hans?

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!