Mánudagur 18.02.2013 - 11:01 - FB ummæli ()

Rætin kvenfyrirlitning

Fólk má auðvitað hafa hvaða skoðun sem það vill á verkum Katrínar Jakobsdóttur verðandi formanns VG.

En kvenfyrirlitningin sem birtist í leiðara Morgunblaðsins um hana er svo yfirgengileg að mann setur eiginlega hljóðan.

 

 

Katrín hefur verið ráðherra í fjögur ár, þingmaður jafn lengi, varaformaður VG í tíu ár og var á sínum tíma varaborgarfulltrúi í fjögur ár. Hún hefur því margvíslega reynslu af pólitík, fyrir utan önnur störf hennar.

En þetta smættar Davíð Oddsson fyrrum forsætisráðherra niður í að hún sé „gluggaskraut“.

Fyrirgefið, en þetta er ekki fyndið.

Þetta er bara ógeðsleg kvenfyrirlitning.

Nú ætti að vísu öllum að vera sama um ámátlegar tilraunir Davíðs Oddssonar til að niðurlægja andstæðinga sína í pólitík með ömurlegum fimmaurabröndurum.

Hann er jú löngu kominn fram yfir síðasta söludag.

En hann er nú samt sá maður sem fjöldi sjálfstæðismanna lítur enn á sem leiðtoga lífs síns.

Áhrif hans eru enn mikil, bæði á pólitík Sjálfstæðisflokksins og yfirbragð stjórnmálabaráttunnar sem flokkurinn rekur.

Það væri kannski ráð að spyrja núverandi formann Sjálfstæðisflokksins hvað honum finnist um þennan dóm fyrirrennara síns og aftursætisbílstjóra um stjórnmálamanninn Katrínu Jakobsdóttur.

Er þetta talið olræt í Sjálfstæðisflokki Bjarna Benediktssonar hins síðari?

Svo mætti í leiðinni spyrja Hönnu Birnu að því sama.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!