Miðvikudagur 27.03.2013 - 07:04 - FB ummæli ()

Dómadags hræsni

Stjórnarandstæðingar á Alþingi, og sumir stjórnarsinnar raunar líka, halda því fram að ekki hafi verið hægt að samþykkja nýju stjórnarskrána af því umræður hafi skort um ákvæði hennar, og rannsóknir á áhrifum þeirra.

Þetta er raunar rangt – umræður og rannsóknir hafa staðið um þessi ákvæði í meira en tvö ár.

En látum það vera.

Hins vegar treysta þessir sömu þingmenn sér til að slá fram að kvöldlagi í bakherbergjum þinghússins alveg splunkunýju ákvæði sem gengur út á að vissa háa prósentutölu þurfi í atkvæðagreiðslum um stjórnarskrárbreytingar.

En þetta ku hafa gerst í þinghúsinu í gærkvöldi.

Slíkt ákvæði er reyndar mjög varasamt – um það var til dæmis rætt fram og til baka í stjórnlagaráði, en ákveðið að sleppa öllu slíku.

En sömu þingmenn og þykjast þurfa margra mánaða umræður og ítarlegar rannsóknir á margræddum ákvæðum nýju stjórnarskrárinnar, hvað gera þeir sjálfir?

Þeir telja sig sem sagt geta slegið alveg nýju ákvæði fram að kvöldlagi, sem hluta af allsherjar skítamixi um þinglok.

Ákvæði sem ekkert hefur verið rætt um fram að þessu.

Og samþykkt það að morgni.

Hvílík dómadags hræsni.

Stjórnarskráin er greinilega ekki annað en leiksoppur í hráskinnaleik hrossaprangara.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!