Föstudagur 29.03.2013 - 13:02 - FB ummæli ()

„Íslenska þjóðin verður fyrst að sjá farborða sínum eigin börnum …“

Þann 11. desember 1938 birtist leiðari í dagblaðinu Vísi sem ég ætla að vitna aðeins í.

Að gamni eða hitt þó heldur.

Leiðarann í heild er annars að finna hér.

Tilefni leiðarans var að nýlega hafði verið stofnað svonefnt Friðarvinafélag. Það vildi leitast við að hjálpa Gyðingum að setjast að á Íslandi.

Gyðingar sættu þá þegar grimmilegum ofsóknum í Þýskalandi en þeim sem komust úr landi gekk illa að finna sér skjól í öðrum löndum.

Menn vildu sem minnst af þeim vita.

Og Íslendingar voru því miður ekki barnanna bestir.

Viðbrögð Íslendinga við skelfingum þeim sem Gyðingar stóðu frammi fyrir í Þýskalandi voru því miður bæði þjóðinni og leiðtogum hennar til skammar.

Katrín Thoroddsen læknir og síðar alþingismaður sósíalista hafði sótt um leyfi til að ættleiða nokkur þýsk börn af Gyðingaættum en því var hafnað.

Leiðarahöfundur Vísis, væntanlega ritstjórinn Kristján Guðlaugsson, skrifaði af þessu tilefni leiðara sinn.

Hann taldi – eins og sumir hafa gert síðar – að Íslendingar ættu að líta svo á að hver væri næstur sjálfum sér.

„Þótt eðlilegt sé að íslenskir borgarar hafi samúð með Gyðingum í Þýskalandi í þeim hörmungum sem að þeim steðja, þá er þó hver sjálfum sér næstur og íslenska þjóðin verður fyrst að sjá farborða sínum eigin börnum, áður en hún tekur á sig framfærslu erlendra flóttamanna.

Og þjóðin hefur ennfremur þá helgu skyldu að vernda hinn íslenska kynstofn, hið norræna og keltneska blóð, svo að ekki blandist honum sterkur erlendur stofn sem þurkað getur út hin norrænu ættarmerki eftir fáa mannsaldra.

Það hlýtur að vera ófrávíkjanleg krafa hvers einasta Íslendings að ríkisstjórnin sjái svo um að settar verði rammar skorður við innflutningi útlendinga, sem nú leita dvalar um gervalla Evrópu.

Þjóðin er einhuga um slíka ákvörðun.“

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!