Fimmtudagur 25.04.2013 - 12:37 - FB ummæli ()

Herfræði Sjálfstæðisflokksins

Stjórnmálaskýring, alveg ókeypis:

Strategía Sjálfstæðisflokksins alveg þangað til seint í janúar var þessi:

Eftir mikinn kosningasigur (allt að 40-41 prósent) átti að mynda ríkisstjórn með þeim smáflokki sem minnstar kröfur gerði, helst Framsóknarflokki eða VG.

Sjálfstæðisflokkurinn átti að fá fimm ráðherraembætti og öll þau veigamestu.

Síðan átti að skipa málum eins og honum þóknaðist, meðan smáflokkurinn vasaðist í allskonar smámálum og þornaði smátt og smátt upp eins og sagan segir að komi fyrir þá sem ganga í stjórn með Sjálfstæðisflokknum.

En síðan gerðist tvennt óvænt.

Framsóknarflokkurinn tók stóra stökkið fram á við.

Og það rann upp fyrir dágóðum hluta kjósenda að kannski væri eitthvað verulega brogað við að ætla að verðlauna Sjálfstæðisflokkinn með atkvæði sínu eftir aðild hans að hruninu og málþófsandstöðunni síðustu árin.

Svo nú hefur Sjálfstæðisflokkurinn endurskoðað markmið.

Auðvitað er markmið númer eitt að verða stærri en Framsóknarflokkurinn.

En flokkurinn hefur líka hugsað út í það hvað á að gera ef það tekst ekki, og Sjálfstæðisflokkurinn verður minni en Framsókn.

Þá er herfræðin sú að bíta á jaxlinn, ganga í stjórn undir forystu Sigmundar Davíðs – en spinna um leið kænlegan vef um Framsókn.

Láta sér vel líka að Framsóknarflokkurinn fái óhikað að reyna sig í því hrægammaskytteríi og skuldaniðurfellingum sem flokkurinn boðar. En sjá í leiðinni vandlega um að Framsókn beri ein ábyrgð á þeim baráttumálum hinnar yfirvofandi ríkisstjórnar.

Á meðan fær Sjálfstæðiflokkurinn að sinna því í rólegheitum sem honum þykir mestu varða.

Að lækka veiðigjöld á sægreifana og koma endanlega í veg fyrir alla grundvallarendurskoðun á kvótakerfinu.

Að henda stjórnarskránni nýju – enda á ekkert óviðkomandi lið að koma nálægt slíku.

Að lækka skatta á hátekjufólk – enda telur flokkurinn það eiga verulega bágt eins og hér kemur fram.

Að hætta við Evrópusambandsumsóknina. Það verður hin hinsta dreypifórn sem Bjarni Benediktsson færir hinum mikla og ástsæla leiðtoga í aftursætinu – fórn sem hann verður að færa, eins þótt hann sé í hjarta sínu annarrar skoðunar.

Að virkja allt vatn sem rennur, og bora göng gegnum sérhvern hól – svo vinnuvélar verktakanna í flokknum hafi nóg að starfa.

Að draga úr þrótti rannsókna á hruninu og aðdraganda þess, svo aftur komist á „eðlilegt ástand“ fyrir vini og frændur flokksins.

Síðan, ef Framsóknarflokkurinn nær ekki jafn góðum árangri í hrægammaskytteríinu og hann hefur lofað (en það telur Sjálfstæðisflokkurinn óhjákvæmilegt), þá ætla sjálfstæðismenn að yppta öxlum, kenna framsóknarmönnum um öll vonbrigði en græða sjálfir á þeirri bólu sem þá verður vonandi komin af stað.

Og grilla í dýrlegum fagnaði sérhvert kveld …

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!