Mánudagur 13.05.2013 - 20:14 - FB ummæli ()

Merkileg sýning „um“ Geirfinnsmálið

Ég fór í gærkvöldi að sjá sýninguna Hvörf sem leikhópurinn Lab Loki sýnir í samvinnu við Þjóðleikhúsið. Sýningin er merkileg meðal annars fyrir það að fyrsta hluta hennar horfa áhorfendur á í salnum Kassanum bak við Þjóðleikhúsið sjálft, en síðan færist sýningin yfir í hið gamla dómhús Hæstaréttar þar við hliðina.

Það á sér þá skýringu að verkið fjallar um sakamál, sem er augljóslega reist á Guðmundar- og Geirfinnsmálunum. Þótt það sé skáldverk og víða fantaerað ótæpilega, þá er líka hvað eftir annað vitnað í hið upphaflega sakamál – og stundum með óvæntum hætti – svo sem þegar ein leikkonan stígur fram, varpar af sér gervi sínu stundarkorn og reynist tengjast málinu á merkilegan hátt.

Það er full ástæða til að hvetja fólk til að sjá þessa sýningu. Hún ber öll einkenni Guðmundar- og Geirfinnsmálanna – hún er tætingsleg, groddaleg á köflum, oft farsakennd, stundum óskiljanleg, og hún er iðulega grátleg og nístandi, hún er fróðleg, fyndin og skemmtileg, allt í einum dálítið heillandi hrærigraut.

Hún er á sinn hátt prýðileg táknmynd um það rugl sem var á ferðinni í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum – burtséð frá að hvaða marki hún fjallar beinlínis um þau mál.

Þetta er pólitískt leikhús í bestu merkingu þess orðs – endilega drífið ykkur.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!