Laugardagur 25.05.2013 - 18:16 - FB ummæli ()

Af hverju brást fólk svona við orðum Sigmundar Davíðs?

Ég kaus ekki Sigmund Davíð í kosningunum um daginn. Eigi að síður segi ég það í fyllstu einlægni að ég vona að hann muni standa sig vel í embætti forsætisráðherra og vinna öllum landsmönnum og landinu sjálfu til heilla.

Því er það síður en svo af nokkurri Þórðargleði sem ég verð að höggva í sama knérunn og ýmsir aðrir hafa gert, og vekja athygli á ótrúlegum ummælum hans í þættinum Vikulokum fyrr í dag.

Þar sem hann afgreiddi fjögur hundruð athugasemdir almennings vegna Rammaáætlunar þannig að það hefði nú eiginlega bara verið „sama athugaemdin“ því það hefði verið „400 sinnum sami textinn“.

Sjá hér.

Menn hafa komið með ýmis dæmi til að reyna að leiða Sigmundi Davíð fyrir sjónar hve þetta sjónarmið er undarlegt. Hvort andmælin gegn Icesave hafi á einhvern hátt verið lítils virði af því þar skrifaði fólk hrönnum saman undir „sama textann“. Hvort 47.000 atkvæði Framsóknarflokksins séu eitthvað ómerkari en ella af því þar merkti fólk bara eitt lítilfjörlegt „x“ á samskonar pappírsmiða.

Og svo framvegis.

Þessi dæmi eru kannski ekki öll jafn vel heppnuð.

En öll eru þau tilraun til að leiða Sigmundi Davíð fyrir sjónir hve ólýðræðisleg hún var í raun og veru, sú hugsun sem skein í gegnum ummæli hans í Vikulokunum.

Og það er með fyllstu vinsemd sem ég vil leyfa mér að ráðleggja Sigmundi Davíð hvernig hann ætti að bregðast við.

Ekki fara að tala um „misskilning“ eða „ég átti nú auðvitað alls ekki við …“

Þaðan af síður fara að tala um „hártogun“ eða „útúrsnúninga“.

Hann getur eiginlega ekki talað um „klaufaskap“ eða neitt af því tagi, því hann var spurður nánar út í ummælin í þessum þætti, og ítrekaði þau.

Þetta var því eitthvað sem hann hafði raunverulega hugsað.

En í staðinn fyrir að afgreiða málið sem „misskilning“ eða „hártogun“ pólitískra andstæðinga, þá ætti Sigmundur Davíð að hugleiða af hverju fólk brást svona við orðum hans.

Og horfast í augu við sjálfan sig og spyrja sig hvort það geti verið að í orðum hans hafi falist einhver ólýðræðislegur þokuslæðingur sem hann þurfi þá að gæta sín á í framtíðinni.

Ég vona að hann bregðist þannig við.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!