Þriðjudagur 18.06.2013 - 09:39 - FB ummæli ()

Sægreifar styrkja flokka tvo sem síðan lækka skatta sægreifa

Sjáið þessa frétt hér.

Hérna er upphaf hennar:

Screen shot 2013-06-18 at 9.13.26 AM

Og setið þessa frétt svo í samhengi við fyrirætlanir ríkisstjórnarflokkanna um að lækka og síðan fella niður þau veiðigjöld sem fyrrverandi ríkisstjórn kom á og skila ættu miklum tekjum í þjóðarbúið.

Sem þarf svo sannarlega á því að halda.

Íslenskir háskólakennarar við hina virðulegustu háskóla í útlöndum hafa lýst því yfir að þessi áform séu arfavitlaus, „óskiljanleg“ og „augljós della„.

Og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn telur áformin vægast sagt misráðin.

Þótt maður vitni til AGS er maður ekki þar með að taka undir öll sjónarmið þess umdeilda apparats. En starfsmenn þar kunna að reikna og ef reikningum þeirra er stefnt gegn reikningum stjórnmálamanna Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, þá veit ég hvorum ég treysti betur.

Enda hefur Sigmundur Davíð ekki reynt að svara útreikningum þeirra.

Hann reyndi hins vegar í 17. júní ræðu sinni að slá ryki í augu almennings, með því að fullyrða að aðfinnslur AGS snerust um að sjóðurinn vildi ekki að  ríkisstjórnin fengi að leiðrétta skuldir almennings.

AGS var bara ekkert að tala um það að þessu sinni. Sjóðurinn hefur iðulega látið í ljós efasemdir um að miklar skuldaniðurfellingar séu mögulegar eða æskilegar, en hann var bara ekki að tala um það núna.

Heldur gagnrýna fyrirætlun ríkisstjórnarinnar um lækkun og niðurfellingu veiðigjalds – og það ekki á pólitískum forsendum, heldur hagfræðilegum.

En til að reyna að kveða þessa gagnrýni í kútinn hnoðaði Sigmundur Davíð saman útlenskum óvini og heimfærði upp á hann atriði sem málið snerist bara ekkert um.

Allt skal gert til að draga athyglina frá þeirri gagnrýni sem fyrirhuguð skattalækkun ríkisstjórnarflokkanna til sægreifanna hefur orðið fyrir.

En við skulum ekki búa við slíka kúgun.

Við skulum mótmæla öll.

Það er hægt að gera til að mynda hér – með þessari undirskriftasöfnun sem fór af stað á netinu í gær.

Textinn er svohljóðandi:

„Við undirrituð hvetjum Alþingi til að samþykkja ekki frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingar á lögum 74 frá 26. júní 2012 þar sem skilgreind eru þau gjöld sem útgerðinni ber að greiða fyrir afnot af sameiginlegri fiskveiðiauðlind okkar.

Verði Alþingi ekki við þeirri ósk verður þessi undirskriftalisti afhentur hr. Ólafi Ragnari Grímssyni forseta Íslands og hann hvattur til að undirrita ekki lög sem taka til breytinga á lögum 74 frá 26. júní 2012 heldur vísa þeirri ákvörðun í þjóðaratkvæði til eigenda fiskveiðiauðlindarinnar, íslensku þjóðarinnar.“

Skrifið endilega undir og dreifið þessu sem víðast.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!