Miðvikudagur 26.06.2013 - 23:01 - FB ummæli ()

Hverjar eru skýringar íslensku ráðherranna?

Ég bíð enn eftir því að fjölmiðlar spyrji Ólaf Ragnar Grímsson almennilega útí ummæli hans um að Evrópusambandið vilji í raun alls ekki fá Íslendinga í sambandið.

Eins og hann hafði þó fullyrt og það á sjálfu hinu háa Alþingi.

Sjá hér.

Meðan ég bíð vil ég líka skjóta tveimur öðrum spurningum að fjölmiðlamönnum, sem ég botna satt að segja ekki í af hverju þeir hafa ekki þegar spurt í sambandi við heimsóknahrinu íslenskra ráðamanna til útlanda – svo mjög sem þær liggja þó í augum uppi.

Í fyrsta lagi:

Í fréttum af hinum opinberu heimsóknum kemur fram að íslensku ráðherrarnir hafi varla við að taka við hamingjuóskum erlendra ráðamanna fyrir ótrúlegan árangur í efnahagsmálum eftir hrunið.

Af hverju hefur enginn fjölmiðlamaður spurt íslensku ráðherrana (eða forsetann) hvort þeim þyki ekki PÍNULÍTIÐ óþægilegt að taka við þeim hamingjuóskum?

Og í öðru lagi:

Íslensku ráðherrarnir segja alls hugar fegnir að hinir erlendu ráðamenn hafi vissulega lýst vonbrigðum sínum yfir því að Íslendingar skuli ekki í þessari lotu vilja ganga í hóp vinaþjóða sinna á Vesturlöndum, en hafi þó fullan skilning á afstöðu nýrrar ríkisstjórnarinnar.

Og þá spyr ég:

Hver er sú afstaða?

HVERNIG hafa íslensku ráðherrarnir útskýrt sinnaskipti íslenskra stjórnvalda í þessu máli?

HVERNIG útskýra þeir að einmitt þegar hylla fer undir viðræðulok, þá skuli hætt við allt saman – og það þótt skýr meirihluti Íslendinga lýsi því yfir í skoðanakönnunum að þeir vilji klára dæmið?

HVAÐA SKÝRINGU gefa íslensku ráðamennirnir?

Góðu fjölmiðlamenn – viljiði spyrja að þessu fyrir mig á næsta fundi ykkar með kátum íslenskum ráðherrum?

Þeir eru þarna á mínum vegum – og ég á rétt á að vita þetta.

Finnst ykkur það ekki?

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!