Fimmtudagur 11.07.2013 - 23:59 - FB ummæli ()

Bókmenntir í neðanjarðarlest

Ameríkanar eru einstaklega menningarsnautt fólk, teljum við stundum.

Og vissulega gæti maður stundum ályktað sem svo ef aðeins væri byggt á stórmyndunum frá Hollywood.

En nú fyrir stundu sat ég í neðanjarðarlest á Manhattan og með mér var fólk á leiðinni í efri byggðir þar, til Harlem og svo til hins óttalega hverfis Bronx.

Og á fjögurra fermetra svæði var einn ungur piltur með skemmtilega litað hár að lesa þykkan doðrant sem ég náði ekki hvað hét en kápan gaf til kynna að þarna væri fjallað um borgarlíf á 19. öld, ég veit ekki hvar.

Dökkleit kona í eldrauðum kjól var að lesa skáldsögu eftir kanadísku skáldkonuna Margaret Atwood. Ég sá ekki hvað sagan hét en Atwood er frægust fyrir Sögu þernunnar, sem er í senn science-fiction, femínismi, samtímalýsing og dágóðar bókmenntir.

Ungur maður um tvítugt sem leit út eins og litli bróðir Bob Dylans var að lesa skáldsöguna Let the Great World Spin eftir Colum McCann. Hana hef ég ekki lesið en McCann er sagður vera einhver merkilegasti rithöfundur Íra nú um stundir. Þessi flókna og metnaðarfulla skáldsaga fjallar reyndar um fólk í New York borg.

Og að síðustu – ég er ekki að ljúga þessu! – en í ganginum stóð ung kona í æpandi hvít-og-fjólublá-röndóttum kjól og var að lesa síðustu blaðsíðurnar í Catch-22 eftir Joseph Heller.

Það væri vel af sér vikið ef maður rækist á svona litterer samkomu í íslenskum strætó, trúi ég.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!