Sunnudagur 21.07.2013 - 21:33 - FB ummæli ()

Moskur í Sogamýri og Manhattan

Ég verð að segja að mér finnst með ólíkindum að hér skuli upp risin umræða um hvort ætti að leyfa múslimasöfnuði að reisa sér mosku í Reykjavík.

Það er árið 2013 og á ekki að þurfa að hafa mörg orð um að trúfrelsi ríkir í landinu.

Fordómarnir sem kvikna og fáviskan eru með nokkrum ólíkindum. Meira að segja ömurlegur dómur sem nauðgunarfórnarlamb mátti sæta í Dúbaí var allt í einu komið inn í umræðuna um þetta!

Vonandi lýkur þessari umræðu hér og múslimar fái sína mosku. Það er vel að merkja EKKI verið að ræða um þann söfnuð þar sem trúarleiðtogi talaði gegn samkynhneigðum um daginn, heldur annan og frjálslyndari söfnuð.

En meira að segja þau orð hins villuráfandi trúarleiðtoga voru reyndar ekki öllu svakalegri en sumt sem kristnir leiðtogar hér á landi hafa látið hafa eftir sér.

Og flokkast undir rugl sem við vinnum bug á með fræðslu og umburðarlyndi, en ekki með því að gera fólki erfitt fyrir að iðka sína trú.

Um daginn var ég í Harlem á Manhattan-eyju í New York. Sú eyja varð fyrir hryðjuverkaárás fyrir 12 árum og eftir það máttu múslimar sæta margvíslegum fordómum þar vestra. Skildist manni að minnsta kosti.

En þeir virðast nú alveg hafa lognast út af að fullu, sem betur fer. Andrúmsloftið í garð múslima sá ég ekki betur en væri í alla staði eðlilegt. Þeir eru bara eins og hverjir aðrir íbúar í þessari vingjarnlegu borg.

Það var moska einni eða tveimur húsalengjum frá íbúðinni þar sem ég bjó. Reyndar bara í venjulegu húsnæði – milli nýlenduvöruverslunar og bílaverkstæðis. Þar fóru fram kvöldbænir með nokkurri viðhöfn. Það var ævinlega troðfullt svo margir stóðu úti á gangstétt og hlýddu á bænirnar.

Þetta var friðsælt og eðlilegt – bara rétt eins og í kirkjum kristinna manna. Og enginn kippti sér upp við neitt.

Ef íbúar á Manhattan líta á moskur og múslima sem fullkomlega sjálfsagðan part af tilverunni, hví þá ekki fólkið í Reykjavík?

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!