Miðvikudagur 14.08.2013 - 09:00 - FB ummæli ()

Er það sæmandi?

Ég hef reynt – já, ég hef reynt! – fyrst að hafa húmor fyrir Vigdísi Hauksdóttur og síðan að leiða hana hjá mér.

En það er ekki hægt endalaust.

Konan hefur verið leidd til öndvegis í íslensku samfélagi af flokki sínum og kjósendum, hún er formaður fjárlaganefndar Alþingis og hún er í þingmannahópi þeim sem á að leggja fram tillögur um harkalegar sparnaðarráðstafanir í ríkiskerfinu.

Þetta eru mjög viðkvæm og erfið störf sem brýnt er að stillt fólk og yfirvegað gegni.

Það var því í sjálfu sér undarlegt af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og Bjarna Benediktssyni að velja Vigdísi til þessara verka.

Og nú hefur hún gengið of langt.

Hún segir fréttastofu Ríkisútvarpsins hafa haft rangt eftir sér, krefst leiðréttingar og fréttastofan breytir orðalagi í frétt sinni.

Allt í lagi með það.

En þá byrjar Vigdís að hóta.

„Ég er náttúrlega í þessum hagræðingarhópi.“

Skilningurinn er sem sagt sá að ef hún hefur persónulega eitthvað upp á Ríkisútvarpið eða einhverjar aðrar ríkisstofnanir að klaga, þá skuli þær vara sig!

Þær verði skornar niður við trog!

„Ég er náttúrlega í þessum hagræðingarhópi.“

Sjá frétt Eyjunnar um þetta hér.

Er það sæmandi að manneskja með þetta hugarfar og þetta viðhorf gegni jafn ábyrgðarmiklum störfum og Vigdís Hauksdóttir gerir?

Ha, Sigmundur Davíð?

Vill einhver kannski spyrja hann að þessu fyrir mig?

Fyrir nú utan dónaskapinn sem forstjórum ríkisstofnana er sýndur með orðum hennar seinast í fréttinni.

Margir þeirra – já, ég fullyrði flestir þeirra – hafa áreiðanlega gert íslensku samfélagi meira gagn en Vigdís Hauksdóttir.

Og síðasta setning í frétt Eyjunnar er ótrúleg, komandi frá þingmanni ríkisstjórnarinnar sem mestöll hefur verið á þessum ljómandi skemmtilegu ferðalögum í sumar:

„Um leið og peningar eru í boði og gulrótin hangir fyrir framan nefið á einhverjum, þá verður allt vitlaust.“

Jahérna.

 

 

Í fyrstu gerð pistilsins misritaði ég „sérfræðingahópi“ í stað „hagræðingarhópi“. Það leiðréttist hér með, en breytir vitanlegu engu um eðli hótunar Vigdísar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!