Fimmtudagur 15.08.2013 - 13:29 - FB ummæli ()

Þegar stjórnmálamenn komast upp með að misbjóða kjósendum …

Vigdís Hauksdóttir reynir að klóra sig frá hótun sinni í garð Ríkisútvarpsins með því að orð hennar hafi verið „rangtúlkuð“.

En það er bara rangt hjá henni. Já, það er hreint út sagt tóm tjara.

Hún var á Bylgjunni að kvarta undan því að rangt hefði verið haft eftir henni í viðtali á RÚV.

RÚV hafði umsvifalaust birt leiðréttingu, en það dugði Vigdísi Hauksdóttur ekki. Hún kvartaði og kveinaði á Bylgjunni, þessi mikla manneskja.

Heimir Karlsson umsjónarmaður þáttarins á Bylgjunni spurði þá alveg skýrt: „Ætlarðu að fara með ÞETTA MÁL eitthvað lengra?“

Hann spurði meira að segja tvisvar svo ekkert færi á milli mála.

Og Vigdís svaraði, líka alveg skýrt:

„Ja, ég er náttúrulega í þessum hagræðingarhóp …“

Og fór svo að tala um fjárveitingar til Ríkisútvarpsins, sem væru alltof háar.

„Mér finnst óeðlilega mikið fjármagn fara í rekstur RÚV, sérstaklega þegar þeir standa sig ekki betur en þetta í fréttaflutningi.“

Þetta var hótun og ekkert annað en hótun, og það er Vigdísi Hauksdóttur til enn frekari minnkunar í þessu máli að hún skuli nú ekki þora að kannast við það.

Ég hélt hún hefði bein í nefinu.

En lengi má manninn reyna.

Þessi orðhákur þorir þá ekki að standa við orð sín.

Og getur ekki beðist afsökunar á þeim heldur.

Og ég verð líka að segja að ég varð fyrir djúpum vonbrigðum með nafna minn Gunnarsson, þegar hann sagði í viðtali í gær að hann tæki mark á staðhæfingum Vigdísar um að orð hennar hefðu verið rangtúlkuð.

Stjórnmálamaður sem eitthvað er spunnið í á ekki að taka undir svona prat manneskju sem augljóslega er ætlað að þyrla upp moldviðri meðan hún kemst undan á flótta.

Það henti því miður Illuga Gunnarsson menntamálaráðherra í gær.

Í þessu máli er rétt að vitna til orða Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur stjórnsýslufræðings:

“Þegar stjórnmálamenn komast upp með það að misbjóða kjósendum með orðum sínum eða athöfnum án þess að taka afleiðingunum, t.d. með því annað hvort að biðjast afsökunar eða að segja af sér, verða langtímaáhrifin fyrir stjórnmálamenningu og siðferði stjórnmálanna mjög alvarleg. Stjórnmálamönnum lærist að þeir geta sagt og gert hluti án þess að taka pólitíska ábyrgð á þessari hegðun sinni. Þannig búa þeir smám saman til ný viðmið í hugum kjósenda og treysta á aukið siðferðilegt þanþol þeirra. Pólitískt siðleysi eykst og grefur undan lýðræðislegri ábyrgð.”

Um það snýst mál Vigdísar Hauksdóttur.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!