Mánudagur 19.08.2013 - 10:03 - FB ummæli ()

Finnst sjálfstæðismönnum allt í lagi að bera ábyrgð á þessum ósköpum?

Framganga framsóknarmanna á þessum fyrstu 100 dögum ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs er með þvílíkum ólíkindum að ég efast um að verstu óvinir flokksins hefðu getað sett saman annað eins handrit.

Sjá til dæmis hérna – á sumu því sem hér er nefnt bera náttúrlega sjálfstæðismenn líka ábyrgð.

Og þessi pistill hér, þótt harðorður sé, er á sinn hátt afar skiljanlegur.

Þruglið og bullið sem oltið hefur upp úr Gunnar Braga utanríkisráðherra (og Sigmundi Davíð) um Evrópusambandsmál er þvílíkt að það er beinlínis pínlegt að hlýða á það.

Ég leyfi mér að taka hér traustataki Facebook-færslu Hallgríms Helgasonar frá í morgun:

„Utanríkisráðherra er orðinn innanríkisvandamál. Talar í stöðugum og ansi framsóknarlegum mótsögnum sem fólk á erfitt með að skilja, hvað þá túlka. Segir eitt, og sekúndum síðar annað, þannig að enginn skilur hvað hann meinar. Hann átelur ESB fyrir IPA styrki í einni setningu en skammar það fyrir að draga þá til baka í þeirri næstu. Harmar að stofnanir fái ekki styrkina, sem bara átti eftir að skrifa undir, en fór sjálfur til Brüssel til að segja nei við ESB áður en skrifað var undir. Krafðist þess að síðasta stjórn héldi þjóðaratkvæði um viðræður við ESB en vill ekki sjá það sjálfur nú. Kannski má skrifa þetta allt á reynsluleysi eða skort á skýrri hugsun, í besta falli sveitamennsku.

Verst var þó í morgun að heyra í honum vald- og kynhrokann þegar hann var spurður um afstöðu þingflokksformanns Sjálfstæðismanna, sem í Fréttablaði dagsins segist ósammála utanríkisráðherra. Hann afgreiddi það svo: „Mér finnst hinsvegar leiðinlegt ef vinkona mín Ragnheiður er eitthvað að misskilja mig.“ Vandinn er þó einmitt sá að hún var einmitt AÐ SKILJA ráðherrann, sem er afrek út af fyrir sig. Viðskeytið „vinkona mín“ er svo hlaðið hvimleiðu karlrembulegu yfirlæti. Patronizing heitir það á ensku. Utanríkisráðherra er því fákunnandi og hrokafullur í senn, einhver sú versta blanda sem til er í stjórnmálum.“

Ég tek undir þessi orð Hallgríms.

En af því alltaf kemur eitthvað nýtt til sögu í uppistandi Framsóknarflokksins, þá er hætta á að við gleymum því næsta á undan.

Og það ættum við ekki að gera.

Við megum ekki gleyma strax hótun Vigdísar Hauksdóttur í garð Ríkisútvarpsins og starfsmanna þar.

Sumir reyndu að afgreiða hótanir hennar eins og léttvægt hjal, og jafnvel að hneykslunaraldan sem mætti ummælum hennar væri til marks um einhvers konar „einelti“ í hennar garð!!

Manneskja sem hótar heiðarlegum fréttamönnum starfsmissi ef þeir haga sér ekki eins og hún vill (því það var hún að gera), hún átti að hafa orðið fyrir einelti!

En hótanir hennar mega ekki gleymast.

Og við verðum að krefjast þess að hún sé látin víkja úr þeim ábyrgðarstörfum þar sem hótanir hennar og yfirgangur geta haft víðtæk og mjög skaðleg áhrif.

Það verður að herma það upp á Sigmund Davíð við hvert tækifæri.

Þess vegna er mánudagsgrein Guðmundar Andra Thorssonar í Fréttablaðinu svo góð og mikilvæg.

Hún er hérna, og ég vek sérstaklega athygli á þessum orðum hér, og geri að mínum:

„Vandséð er hvort er verra, sjálf hótun Vigdísar Hauksdóttur eða hitt, að hún komist upp með hana.

Geri hún það hefur íslensk stjórnmálamenning færst enn neðar en áður.

Komist Vigdís upp með hótanir sínar hefur henni tekist að skapa andrúmsloft ótta og sjálfsritskoðunar kringum sig, hún hefur brotið siðareglur sem alls staðar eru gerðar til stjórnmálamanna í þeim lýðræðisríkjum sem flest okkar vilja að Ísland miði sig við, hún hefur seilst langt út fyrir verksvið sitt, misnotað aðstöðu sína í þjónustu almennings í eigin þágu og haft í hótunum við starfsfólk almannastofnunar sem ekki hefur gert annað en að reyna að sinna vinnu sinni af þeirri trúmennsku sem óskandi væri að Vigdís Hauksdóttir reyndi einhvern tímann að tileinka sér.“

Svo mörg voru þau orð.

Á einum og sama morgninum hefur framferði framsóknarforkólfanna verið kallað „tilræði við lýðræðið“, tengt við einræði og fákunnáttu og hroka.

Og Auður Jónsdóttir rithöfundur skrifaði á Facebook í gær:

„Það er aðeins tvennt sem kemur til greina: A [Vigdís] gerði sig seka um einræðislega hótun. B Hún skilur ekki merkingu eigin orða. Möguleikarnir eru ekki fleiri. Og þeir eru báðir álíka slæmir. Manneskja sem hótar eins og einræðisherra á ekkert erindi í íslensk stjórnmál. Manneskja sem skilur ekki alvarleika umræddra orða er ekki nógu vel upplýst til að starfa í stjórnmálum, hvað þá að fara með völd.
Ef þessi gjörningur Vigdísar fær að líða hjá og gleymast, eins og svo margt annað í þessu þjóðfélagi, er þá nema von að maður spyrji sig: Hvað næst? Vöknum við upp einn daginn í svo afskræmdri stjórnskipan að það brýst út borgarastyrjöld? Annað eins hefur gerst. Ábyrgð fjölmiðla í þessu máli er mikil og ekki síður ríkisstjórnarinnar sem og Framsóknarflokksins.“
Sagði Auður.

Er heiðarlegum almennum framsóknarmönnum ekki farið að blöskra?

Eða heiðarlegum almennum sjálfstæðismönnum?

Finnst þeim allt í lagi að bera ábyrgð á þessum ósköpum?

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!