Fimmtudagur 19.09.2013 - 10:04 - FB ummæli ()

Ríkisstjórn hinna ríku, eingöngu

Ég heyrði Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segja frá því í útvarpinu í gær að engar líkur væru á að hægt yrði á næstunni að lækka kostnaðarþátttöku sjúklinga í læknisaðgerðum.

Rödd hans var full af sorg, eins og þetta væri honum afar sárt.

Það væru bara engir peningar til.

En hvernig skyldi standa á því?

Hvað hefur þessi ríkisstjórn gert hingað til?

Hún hefur létt álögum af allra ríkasta fólki landsins, sægreifunum, sem einmitt um þessar mundir greiða sér milljarða og aftur milljarða í arð af því sem á að heita sameiginleg auðlind þjóðarinnar.

Hún hefur líka létt öðrum álögum af ríkasta fólki landsins, með því að sleppa því að framlengja auðlegðarskattinn sem hefði fært illa stöddum ríkiskassanum nokkra milljarða.

Hún hefur afnumið tekjutengingar ellilífeyrisbóta. Ekki skal ég amast mikið við því, en það er þó athyglisvert að sú aðgerð kemur fyrst og fremst best stadda gamla fólkinu að gagni. Önnur afrek hefur þessi ríkisstjórn ekki unnið í velferðarmálum.

Og hún hefur í undirbúningi (er það ekki örugglega?) svo miklar afskriftir af íbúðalánum að öll heimsbyggðin hefur aldrei séð annað eins.

Setjum nú svo að það takist.

Hverjum kemur það þá helst að gagni?

Jú – þeim tekjuhæstu!

Sjá hér.

Þið fyrirgefið, en „sorg“ Kristjáns Þórs og annarra ráðherra í þeirri ríkisstjórn sem svona vinnur, hún finnst mér ekki eins hundkvikindis virði. Nei, ekki eins lúsugs hundkvikindis virði!

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!