Laugardagur 21.09.2013 - 17:56 - FB ummæli ()

Lágkúran í Davíð Oddssyni

Davíð Oddsson var borgarstjóri í Reykjavík í níu ár og síðan forsætisráðherra í tólf.

Þegar best lét naut hann mikilla vinsælda og aðdáunar og sjálfstæðismenn töldu hann mesta leiðtoga sinn og þjóðarinnar frá upphafi vega.

Sjálfum fannst mér hann alltaf afar misvitur stjórnandi og þeim mun verri eftir því sem hann hafði völdin lengur.

Eigi að síður var erfitt að bera ekki nokkra virðingu fyrir honum á hans velmektardögum, og líka jafnvel við hann persónulega.

Það var í þá daga.

Nú er hann leigupenni útgerðarauðvaldsins, skrifar fúkyrði í leiðara og fimmaurabrandara í Staksteina og reynir á aumkunarverðan hátt að endurskrifa söguna í Reykjavíkurbréfum.

Og í dag gengur pólitísk barátta hans út á að reyna að gera að gera lítið úr pólitískum mótstöðumanni með því að skrifa nafn hans öðruvísi en mótstöðumaðurinn sjálfur kýs.

Sjá hér.

Þetta er í raun nákvæmlega það sama og að uppnefna fólk.

Jón Gnarr þarf ekkert á aðstoð að halda við að kveða þessa lágkúru í kútinn. Hann hefur þegar gert það af meiri hógværð og mannviti en Davíð Oddsson hefur nokkru sinni sýnt á ævinni. Sjá hér.

En mig langar að spyrja vini mína í Sjálfstæðisflokknum:

Ætlið þið endalaust að fylgja foringja sem lætur stjórnast af svona lágkúru og geðvonsku?

Það er sorglega komið fyrir Davíð Oddssyni, já, en þurfið þið endilega að feta þessa braut með honum?

Hvenær á að gera upp? Hvenær hafið þið hugrekki til að slíta ykkur lausa?

Hvenær rifjast upp fyrir ykkur hvað flokkurinn ykkar heitir?

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!