Þriðjudagur 15.10.2013 - 15:45 - FB ummæli ()

Sami hráskinnaleikurinn, sömu trixin

Sjálfstæðismenn vinna nú af kappi að því að svæfa endanlega samþykkt Alþingis frá síðasta kjörtímabili um skipan rannsóknarnefndar til að skoða einkavæðingu bankanna fyrir rúmum tíu árum.

Ástæðan er auðvitað sú að komist sú rannsóknarnefnd á legg og vinni verk sitt vel, þá er ansi mikil hætta á að gusurnar muni ganga yfir orðstír margra úr Sjálfstæðisflokknum – og Framsóknarflokknum raunar líka.

Frá Davíð og Halldóri og niðrúr.

Nú þegar hefur hinn knái forseti Alþingis, Einar K. Guðfinnsson, ákveðið með sínu fólki að „fresta“ skipan rannsóknarnefndarinnar, meðan starf fyrri rannsóknarnefnda er metið.

Og fer ekki milli mála að tilgangurinn er sá að svæfa hugmyndina um þessa rannsóknarnefnd endanlega.

Til öryggis hafa nú 13 þingmenn Sjálfstæðisflokksins lagt fram tillögu um rannsóknarnefnd til að skoða Icesave-málið.

Tilgangurinn er augljóslega sá að espa Samfylkingu og Vinstri græna til að vera á móti slíkri Icesave-nefnd, svo vísa megi í það þegar Sjálfstæðisflokkur og Framsókn kasta rekunum á rannsóknarnefndina um bankana.

Eða kannski á jafnvel að víla og díla um það við stjórnarandstöðuna að draga tillöguna um Icesave-nefndina til baka á heppilegum tíma, gegn því að ekki verði miklum mótmælum hreyft þegar hugmyndin um bankanefndina geispar endanlega golunni.

Þetta verður deginum ljósara, þegar tillaga sjálfstæðismannanna um Icesave-nefndina er skoðuð.

Sjá hér.

Orðalagið er bara eins og upp úr pólitískri áróðursgrein í Mánudagsblaðinu, nei afsakið Morgunblaðinu, en ekki eins og ætti að orða tillögu um alvörumál sem flutningsmenn gerðu sér í alvöru von um að ná einhvers konar sátt um og fá jafnvel samþykkta með þorra atkvæða á þingi.

Þetta er bara pólitískur hráskinnaleikur, sá sami gamli – og fyrir sjálfstæðismönnunum 13 vakir enn sem fyrr að verja orðstír forkólfa flokksins fyrir rúmum áratug.

Af hverju gera þeir það? Hvað á þetta að ganga lengi?

Það skal svo að lokum tekið skýrt að ég hef ekkert á móti rannsóknarnefnd um Icesave. Mér finnst það bara mjög fín hugmynd.

En ég vil að rannsóknarnefndin um einkavæðingu bankanna taki fyrst til starfa og ljúki sínu verki.

Og ég þoli ekki lengur að horfa upp á svona billeg pólitísk trix.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!