Miðvikudagur 20.11.2013 - 09:18 - FB ummæli ()

Takk fyrir mig

Jú, það var svolítið leiðinlegt að fótboltalandsliðið skyldi ekki ná að sýna sinn allra besta leik í úrslitaleiknum gegn Króatíu í gær.

Það hefði verið gaman að liðið hefði náð að veita Króötum meiri keppni. Króatar eiga fínt fótboltaliðið, sem yfirleitt spilar mjög skemmtilega og fjörlega, en okkar menn gerðu þeim þetta aðeins of auðvelt.

En að sama skapi hefðu vonbrigðin þá líklega verið lítt bærileg – ef úrslit leiksins hefðu verið í óvissu fram á síðustu sekúndu.

Svo við tökum þessu, og ég hlýt að nota tækifærið og þakka fyrir skemmtunina síðustu misserin.

Það hefur verið frábærlega skemmtilegt að fylgjast með þessum strákum. Úrslit hafa oft verið góð, en skemmtilegast af öllu hefur verið hvað liðið hefur langoftast spilað vel, og já, gáfulega!

Og það er til dæmis ljómandi nýlunda að eiga allt í einu svona fínt sóknarlið.

Þótt við höfum vissulega stundum áður átt furðu góða sóknarmenn, þá er þetta í fyrsta sinn sem sóknin í heild er sterkasti þáttur liðsins.

Liðið er ekki fullkomið ennþá. Það vantar ennþá að sumir þessara stráka veki í sér eyjólfinn.

En þegar það gerist, þá þarf engu að kvíða.

Flestir í liðinu eru enn kornungir og verða ekki upp á sitt besta fyrr en eftir fjögur fimm ár.

Ef liðið ber gæfu til þess að halda áfram að spila vel, þá verður gaman að fylgjast með.

Ég verð alla vega í stúkunni sem fyrr.

Og ekki má minna vera en þakka Eiði Smára Guðjohnsen fyrir hlutdeild hans.

Eiður var óheppinn að því leyti að einmitt á hans allra bestu árum, þá var svolítið millibilsástand hjá landsliðinu.

Hann var þá stundum slíkur yfirburðamaður á vellinum að það var næstum vandræðalegt.

Fegurstu stundir Eiðs á fótboltavellinum eru óneitanlega með Chelsea og Barcelona.

Þjóðarstolt er vandmeðfarið fyrirbæri, en … já, það var einkennilega fallegt að fylgjast með þegar okkar maður spilaði sem jafningi með Xavi, Iniesta og hinum unga Messi.

En með landsliðinu átti hann líka margar ógleymanlegar stundir.

Sú síðasta var í leiknum á Laugardalsvelli á föstudaginn – sendingin inn á Alfreð Finnbogason í blábyrjun seinni hálfleiks.

Sú hefði átt að gefa mark.

En það fór ekki svo, og nú kveðst Eiður vera hættur.

Þá þakkar maður fyrir skemmtunina öll þessi ár, og vonar að Eiði farnist ævinlega vel í hverju sem hann tekur sér fyrir hendur.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!