Sunnudagur 24.11.2013 - 22:16 - FB ummæli ()

Heyrðu Hannes

Heyrðu Hannes.

Ég var að lesa grein eftir þig á Pressunni. Ef einhver ætlar að lesa þetta opna bréf til enda, þá mæli ég með að viðkomandi lesi hana fyrst. Hún er hér.

Um þetta vil ég segja eftirfarandi:

Í fyrsta lagi þykir mér undarlega ósmekklegt af þér að vera búinn að skrá svona nákvæmlega hjá þér alla sem hafa lækað skoðun sem þér fellur ekki, jafnvel þótt sú skoðun snúist reyndar um sjálfan þig.

Að halda skrár yfir þá sem læka eitthvað á Facebook … æ, viljum við nokkuð svoleiðis?

Þetta er alla vega eitthvað sem ég hefði fremur trúað upp á Sigmund Davíð eða Barack Obama en virðulegan fræðimann við Háskóla Íslands.

En nóg um það.

Varðandi það hvort menn hafi orðið hissa og hneykslaðir á því að þú skyldir vera í útvarpinu að tala um Kennedy forseta, þá tek ég fram að ég er ekki búinn að lesa þau komment sem þú vísar til og gerð voru við hina upprunalegu færslu Jóns Þórissonar.

Hafi einhver haft uppi dónaskap um þig, þá er það að sjálfsögðu dónaskapur hinn versti.

En undrunina skil ég vel, og hana verður þú að sætta þig við.

Undanfarna áratugi hef ég vissulega heyrt í þér í fjölmiðlum oftar en tölu verður á komið, en þú hefur nefnilega nær eingöngu verið að tala um þrjú viðfangsefni.

Alheimskommúnismann, Davíð Oddsson og Margréti Thatcher.

Auðvitað er ég að gera að gamni mínu og auðvitað er þetta einföldun.

(Undir „Margréti Thatcher“ les til dæmis „Friedrich Hayek, Milton Friedmann, kvótakerfið“.)

En þess vegna var það í meira lagi óvenjulegt að þú skyldir allt í einu mættur í útvarpið að tala um John F. Kennedy.

Og mannkynið er nú þannig gert að það hefur gjarnan orð á því sem er óvenjulegt.

Verðum við ekki að leyfa fólki það?

Og ætli það sé ekki jafn góð skýring á því að þetta Spegilsviðtal skyldi vekja eftirtekt og meint yfirvofandi píslarvætti þitt af hendi vondra vinstri manna?

Held þú ættir alla vega ekki að stökkva beina leið upp á krossinn.

Enda er hann upptekinn eins og alkunna er.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!