Miðvikudagur 25.12.2013 - 14:47 - FB ummæli ()

Hafa Bjarni og Sigmundur Davíð „gert Jesú Krist að leiðtoga lífsins“?

Biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, gaf stórmerkilega og óvænta rammpólitíska yfirlýsingu í jólaprédikun sinni í Dómkirkjunni.

Sjá hér.

Prédikunin í heild taldist ekki til tíðinda, þar var margt snoturlega sagt út frá sjónarhóli biskups.

En svo kom þetta hér:

„Á þessum jólum skulum við því minnast þakklætisins. Þakklætis fyrir að fá að lifa í landi sem lýtur stjórn þeirra sem gert hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins …“

Haaaa?

Hefur Agnes biskup einhverjar þær upplýsingar sem við hin höfum ekki?

Hafa þeir Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð tjáð henni að þeir hafi „gert Jesú Krist að leiðtoga lífsins“?

Ef svo er, þá vildi ég gjarnan fá að vita það.

Margt er fagurt í kristindómnum, eins og í öðrum trúarbrögðum, eins og í allri hugsun mannsins, hvort heldur er veraldlegri eða trúarlegri.

En orðalagið að stjórnarherrar landsins hafi „gert Jesú Krist að leiðtoga lífsins“ gefur til kynna að þeir vinni öll sín verk út af þröngum sjónarhóli kristindómsins.

Þetta er nefnilega alls ekki almennt snakk um að Bjarni og Sigmundur Davíð reyni af öllum mætti að vera góðir refir.

Þetta er orðalag sem notað er í heittrúarsamtökum.

Og ég, eins og aðrir íbúar landsins, á rétt að vita annað eins um þá sem stýra landinu.

Því yfirlýsing Agnesar er pólitísk.

Hefur verið ákveðið að snúa af braut hins veraldlega (secular) ríkis og inn á braut hins kirkjulega?

Yfirlýsing Agnesar er svo afdráttarlaus og ákveðin að það hlýtur að kalla á skýringar.

Hafa þeir Bjarni og Sigmundur sem sagt tjáð Agnesi að þeir hafi „gert Jesú Krist að leiðtoga lífsins“?

Eða er þetta bara óskhyggja eða fleipur hjá henni?

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!