Þriðjudagur 07.01.2014 - 14:40 - FB ummæli ()

Lærdómur?

Það virðist því miður vera full ástæða til að fjalla opinberlega um flugslysið á Akureyri á fyrra ári. Hafi það ekki verið ljóst í gær, þá er það ljóst í dag þegar Fréttablaðið birtir viðtal við lækni sem tók um árabil þátt í sjúkraflugi með norðlenska flugfélaginu Mýflugi.

Á æsingalausan og yfirvegaðan hátt segir hann vonda sögu. Í frásögn Fréttablaðsins í morgun hnaut ég einkum um tvennt.

Í fyrsta lagi frásögn hans um viðbrögð heilbrigðisráðuneytisins þegar hann skrifaði suður og lýsti óánægju sinni með fjölmargt í sjúkraflugsrekstrinum sem hann væri ósáttur við.

Kvörtunum hans virðist hafa verið tekið mjög illa, þótt ótrúlegt megi virðast. Tvær starfskonur heilbrigðisráðuneytis voru þó sendar norður.

„Þær voru ekki mjög hrifnar af þessu uppátæki [kvörtunarbréfi læknisins] og voru ansi hvassar í viðmóti.“

Og gerðu ekkert nema senda bréf hans áleiðis til Flugmálastjórnar, sem hafði þó ekkert að gera með meginhlutann af aðfinnslum læknisins. Og ekkert var gert.

Ég vona að heilbrigðisráðuneytið – eða velferðarráðuneytið, eins og það heitir nú – muni skýra þessi afar dularfullu viðbrögð starfsmanna sinna. Það er eiginlega skylda þess.

Í öðru lagi þarf náttúrlega ekki að fjölyrða um orð framkvæmdastjóra Mýflugs í sjónvarpsviðtalinu sem Fréttablaðið vitnar til.

Þegar hann líkir flugmönnum sínum við kýr á vordegi og hæðist (það er ekki hægt að orða það öðruvísi) að öllu eftirlitinu sem flugmenn á þotum stóru flugfélaganna þurfi að sæta.

Horfði enginn málsmetandi aðili á þetta viðtal og hugsaði með sér, bíddu nú við, er þetta endilega rétta hugarfarið hjá yfirmanni flugfélags sem annast sjúkraflug? Eða rétta hugarfarið yfirleitt?

Það er eiginlega ógnvekjandi að sjá framkvæmdastjóra flugfélags sem sér um sjúkraflug beinlínis stæra sig af því að þar sé ekki verið að „horfa yfir öxlina á mönnum“.

Vonandi verður einhver lærdómur dreginn af þessum sorglega atburði. Og vonandi sljákkar eitthvað í þeim löndum mínum sem alltaf eru tilbúnir til að gera lítið úr „eftirlitsiðnaðinum“, bæði á þessu sviði og ekki síður öðrum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!