Föstudagur 17.01.2014 - 11:53 - FB ummæli ()

Ótrúlegar fréttir

DV birtir í dag ótrúlegar fréttir.

Frá því er greint (hérna!) að Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra hafi tekið Birgittu Jónsdóttur þingmann Pírata afsíðis og skammað hana fyrir að hafa varpað fram fyrirspurn um lekamálið úr ráðuneyti Hönnu Birnu.

Skammað hana!

Ráðherra í ríkisstjórn Íslands skammar þingmann bak við tjöldin fyrir opinbera fyrirspurn!

Hvurslags vinnubrögð eru það??

Og ekki nóg með það.

Skömmu síðar hugðist Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna líka spyrja um annan anga málsins í fyrirspurnartíma.

Þá vippaði Hanna Birna sér aftur bak við tjöldin og reyndi að fá Katrínu til að leggja fyrirspurnina ekki fram.

Nú veit ég svo sem ekki hvað hefur tíðkast á Alþingi.

En það hlýtur þó að vera aldeilis fáheyrt að ráðherra hagi sér svona í garð löggjafar- og eftirlitsvaldsins sem Alþingi er.

Ég býst við að fjölmiðlar fylgi fréttunum fast eftir. Reynist þetta allt á rökum reist hjá DV, þá er um mjög alvarlegan hlut að ræða sem verður að upplýsa – eins og reyndar alla aðra anga lekamálsins.

Ég vona líka að Hanna Birna setjist niður með sjálfri sér og íhugi í ró og næði hvort hún hafi til að bera þá auðmýkt gagnvart valdinu, sem henni hefur verið falið um stundarsakir, sem æskilegt verður að telja hjá ráðamanni í lýðræðisþjóðfélagi.

Og ég reikna loks fastlega með því að Einar K. Guðfinnsson forseti þingsins muni taka málið föstum tökum. Hann áttar sig auðvitað á því að það gengur engan veginn að þingmenn hans þurfi að sæta öðrum eins yfirgangi af hendi ráðherra.

Væntanlega gefur Einar út yfirlýsingu fljótlega þar sem hann ávítar Hönnu Birnu stranglega.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!