Miðvikudagur 22.01.2014 - 07:56 - FB ummæli ()

Frosti Sigurjónsson

Leitun er að stjórnmálamanni sem hefur hafið feril sinn óglæsilegar en Frosti Sigurjónsson.

Mér finnst það leiðinlegt því ég batt ákveðnar vonir við Frosta í fyrra.

Hann leit út fyrir að vera málefnalegur, hvað sem öðru leið.

Og svo var þrástagast á hvað það væri gott að fá á þing mann svona spriklandi ferskan úr ATVINNULÍFINU.

Ojæja.

Raunin er sú að hann hefur anað út í hvert pólitíska fúafenið af öðru.

Og nú síðast laug hann um hið fræga frískuldamark.

Það er alveg ástæðulaust að kalla það nokkuð en lygi.

Þetta var meira að segja lygi af býsna ómerkilegri sort.

Hann reyndi nefnilega að kenna öðrum um það sem hann hafði gert sjálfur.

Það er að segja starfsmönnum fjármálaráðuneytisins.

Og grunsemdir, sem ekki hafa verið hraktar, eru um að þetta tiltekna fimmtíu milljarða frískuldamark hafi verið ákveðið – leynt eða ljóst – til að þóknast tilteknum vinum og ættingjum æðstu manna ríkisstjórnarinnar.

Það heitir þá spilling.

Frekar en að viðurkenna það, eða skýra þá málið á annan hátt, ef skýringin er einhver önnur, þá kýs Frosti frekar að játa á sig að hafa „slumpað“ á upphæð sem nemur fimmtíu milljörðum.

Sé það nú rétt, og skýringin sé fremur „slump“ en spilling, á Frosti þá að vera formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis?

Og á hann yfirleitt að sitja á þingi eftir að hafa orðið ber að lygi í mikilvægu máli?

Það er nú það.

Ef þingmaður síðustu ríkisstjórnar hefði orðið ber að öðru eins, þá hefðu Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð og allir þeirra nótar runnið á blóðlyktina.

Þeir hefðu staðið í ræðustól þingsins og talað sig hása um lygar og siðleysi.

Nú segir enginn þingmaður eða ráðherra Sjálfstæðisflokksins eða Framsóknarflokksins múkk.

Bjarni Benediktsson viðurkennir að vísu aðspurður að yfirlýsingar Frosta (mér heyrðist Bjarni reyndar tala um „formanninn“ til að fjarlæga sig honum) hafi verið „óheppilegar“ en mikilvægast sé hins vegar … og svo framvegis.

Eftirfarandi er oftast haft eftir Franklin Roosevelt Bandaríkjaforseta um einræðisherrann Anastasio Somoza í Nicaragua:

„He may be a son of a bitch, but at least he’s our son a bitch.“

Sem þýðir: „Hann er kannski drulluháleisti, en hann er að minnsta kosti okkar drulluháleisti.“

Það hvarflar auðvitað ekki að mér að líkja Frosta á nokkurn hátt við grimman einræðisherra, það er bara hugarfarið í Bandaríkjaforsetanum sem mér finnst forvitnilegt.

Að líta beri framhjá siðferðisbrestum „okkar manna“ í lengstu lög.

Líta sem sagt hinir þingmenn stjórnarflokkanna nú svo á að Frosti sé kannski lygari en hann sé að minnsta kosti þeirra lygari?

Og því skuli hann látinn í friði?

Meðan það viðhorf er uppi, þá mun íslensk stjórnmálamenning ekki fara skánandi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!