Laugardagur 22.02.2014 - 00:08 - FB ummæli ()

Svona er komið fyrir Sjálfstæðisflokknum

Ég er svo gamall að ég man þá tíð þegar formenn Sjálfstæðisflokksins áttu að vera ábyggilegir menn sem hægt var að treysta.

Ég man eftir því þegar Bjarni Benediktsson eldri dó árið 1970. Ég fann að það var heilmikið áfall fyrir fólk. Og ég heyrði í kringum mig að þótt Bjarni hefði verið umdeildur um margt, þá hefði hann alltaf verið maður fyrir sinn hatt og staðið við orð sín.

Geir Hallgrímsson var beinlínis orðheldnin holdi klædd. Hann var líka umdeildur, þótt af allt öðrum orsökum væri en Bjarni Ben, en það hefði aldrei hvarflað að nokkrum manni að hann gæfi út innistæðulausa tékka.

Þorsteinn Pálsson, það var augljóst að hvað sem öðru leið, þá var honum mjög í mun að koma heiðarlega fram.

Davíð Oddsson? Já, margt mátti um hann segja. En að hann gæfi landsmönnum hátíðlegt kosningaloforð og sviki það svo níu mánuðum seinna – nei, slíkt var ekki stíll Davíðs.

Geir Haarde átti við sín vandamál að stríða, eins og aðrir. En blákaldar lygar hefði hann aldrei borið á borð.

Núna er formaður Sjálfstæðisflokksins bersýnilega maður sem er ekki hægt að treysta.

Maður sem ekki stendur við orð sín.

Maður sem gefur út gúmmítékka.

Maður sem kemur ekki heiðarlega fram.

Maður sem gefur hátíðlegt kosningaloforð og svíkur það svo blákalt níu mánuðum seinna.

Og af hverju gerir maðurinn þetta?

Er það fyrir heill lands og þjóðar sem hann gengur svo á bak orða sinna?

Ónei.

Hann er sjálfur þeirrar skoðunar – það vitum við öll – að heiðarlegast hefði verið og affarasælast að klára viðræðurnar við Evrópusambandið.

Svo hann gengur ekki bara á bak orða sinna, heldur líka sannfæringar sinnar.

Er það þá fyrir flokkinn sinn sem hann fórnar svona orðspori sínu?

Ónei.

Það er vissulega fámenn klíka í flokknum sem beinlínis heimtaði að hann sviki hátíðlegt kosningaloforð sitt, en aðrir andstæðingar aðildar að ESB hefðu sætt sig við þá ákvörðun að ljúka viðræðum ef hann hefði verið nógu mikill „statesman“ til að leiða þeim fyrir sjónir að það væri réttast að gera.

En Bjarni Benediktsson yngri er ekki slíkur „statesman“.

Hann er jú bara maður sem á embætti sitt því að þakka að hafa verið hálfkjökrandi í sjónvarpinu.

Og hann fórnar orðspori sínu – og flokksins alls, ef svo ber undir – fyrir Sigmund Davíð Gunnlaugsson og Gunnar Braga Sveinsson.

Svona er komið fyrir Sjálfstæðisflokknum.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!