Fimmtudagur 13.03.2014 - 09:14 - FB ummæli ()

Ef einhver örlítill vottur af æru er eftir

Pistill Sigríðar Jóhannesdóttur af Facebook í gærkvöldi var eins og kjaftshögg.

Svohljóðandi:

„Ég er alveg niðurbrotin út af því að rússnesk stúlka sem hafði stöðu flóttamanns hér og ég hafði svolítið vingast við var fyrirvaralaust rekin úr landi fyrr í vikunni. Hún var hér með 2 börn, 13 ára og 2 ára, og sá eldri plumaði sig svo vel í skólanum. Það var hringt í þessa stúllku, sem hefur verið hér í 1 og hálft ár og kepptist við að læra íslensku og lagði sig fram um að vinna í sjálfboðavinnu, m.a. fyrir Rauða krossinn, kl. 6 um kvöld og henni sagt að hún yrði sótt kl. 6 morguninn eftir og þá yrði hún að vera tilbúin með allt sitt. Hún var flutt til Noregs og er þar í flóttamannabúðum og sagt að þaðan yrði hún svo flutt til Dagestan en hún var að flýja heimilisofbeldi múslimsks eiginmanns.

Drengurinn fékk ekki að kveðja skólafélagana og hún fékk lítil tækifæri til að kveðja þá vini sem hún hafði eignast hérna. Hvað er að ske? Hvernig getum við verið svona grimm? Ég er viss um að þessi stúlka og hennar börn hefðu verið okkur til mikils sóma hefðu þau fengið hæli hér af mannúðarástæðum.“

Ég þekki ekki málavöxtu umfram það sem Sigríður rekur, en hef því miður enga ástæðu til að efast um frásögn hennar.

Og að svo mæltu:

Þetta er svo ógeðslegt að maður skammast sín fyrir að tilheyra sömu þjóð og þau sem hafa látið algjört skeytingarleysi um mannleg örlög og algjöra fyrirlitningu á mannlegri reisn ráða hér ferðinni.

Og að þessi ósköp komi beint í kjölfarið á þeim ósköpunum þegar vísa átti kólumbísku konunum úr landi sýnir að það er ekki bara pottur brotinn í Útlendingastofnun, heldur virðist þar ríkja sjúkt andrúmsloft.

Og ábyrgð Hönnu Birnu Kristjánsdóttur er mikil. Hún ræður auðvitað ekki daglegum störfum þessarar ömurlegu stofnunar en hún hefði fyrir löngu átt að vera búin að gera starfsfólki þar ljóst að þetta viljum við ekki.

Hvað í ósköpunum er því til fyrirstöðu að þessi kona og börnin hennar fái að búa hér?!

Nema hvað Hanna Birna virðist því miður ekki hafa neitt á móti svona vinnubrögðum.

Ef einhver örlítill vottur af æru er eftir í því fólki sem hér hefur ráðið ferðinni, þá á að kalla þessa konu aftur frá Noregi ásamt börnum sínum og veita fjölskyldunni hæli umsvifalaust.

Ég ætla rétt að vona að það verði gert.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!