Föstudagur 18.04.2014 - 18:20 - FB ummæli ()

Hvert fara minningarnar?

Rétt áðan leitaði ég skjóls undan páskahretinu í bókabúð Eymundssonar í Austurstræti og gramsaði þar í nýjum bókum meðan hryðja gekk yfir.

WhereMemoriesGoBook_largeOg þá sá ég eina í erlendu deildinni sem kveikti gamlar minningar.

Sumarið 1969 var ég níu ára og þá var ég settur einn upp í flugvél til Skotlands að heimsækja einkavin föður míns, Magnús Magnússon sjónvarpsmann.

Hann bjó þar uppi í sveit skammt utan við Glasgow ásamt Mamie konu sinni og fimm börnum. Elsta stelpan Sally var fimm árum eldri en ég, svo komu þær Margaret og Anna (sem alltaf var kölluð Topsy) og svo strákarnir Siggy og Jón.

Þarna var ég í tvær þrjár vikur, ef ég man rétt, og þetta var bæði yndislegur og eftirminnilegur tími.

Í hinu stóra samhengi hlutanna gerðist það helst þennan tíma að ég fékk að horfa á Armstrong og Aldrin lenda á tunglinu í beinni útsendingu. Það var auðvitað merkilegt en samt man ég líklega betur eftir ýmsu smálegu.

Mamie og Magnús með Sally nýfædda.

Mamie og Magnús með Sally nýfædda.

Markaði sem ég fór á með fjölskyldunni og ég fékk að kaupa mér nokkur myndasögublöð – og Action-Man!

Bragðinu af bökuðum baunum sem ég smakkaði þarna í fyrsta sinn.

Lyktinni af limgerðinu milli húss fjölskyldunnar og hundabúgarðsins við hliðina á.

Tungunni á hundinum fjölskyldunnar þegar hann sat undir borði og sníkti ristað brauð.

Og svo framvegis.

Magnús var mikið frá í vinnunni, svo það var Mamie sem aðallega annaðist um mig og ég varð voðalega hrifinn af henni.

Hún var einstaklega indæl, vingjarnleg og traust, glaðleg og brosmild, en aldrei uppáþrengjandi fyrir feiminn lítinn strák sem þekkti engan og kunni næstum enga ensku.

Mamie Baird Magnusson bauð einfaldlega af sér sérlega góðan þokka.

Sally og Mamie.

Sally og Mamie.

Því miður bar ég ekki gæfu til að halda tengslum við þessa góðu fjölskyldu en hef alltaf minnst þessa tíma með mikilli hlýju.

En það sem ég vildi sagt hafa – útí Eymundsson áðan rakst ég á splunkunýja bók eftir Sally Magnusson þar sem hún skrifar um móður sín og baráttu hennar við Alzheimer og vitglöp.

Ég sé þar að Mamie hefur verið einn snjallasti blaðamaður Skotlands á sínum tíma, þótt hún helgaði sig fjölskyldunni að mestu síðari hluta ævinnar.

En fyrir um tíu árum fór að bera á glöpum hjá henni.

Hún dó 12. apríl 2012.

Sally skrifar um brotthvarf móður sinnar úr þessum heimi af mikilli nærfærni og skilningi, segja gagnrýnendur.

Hérna er sagt frá bókinni hennar Sally.

Bókin heitir Where Memories Go, eða Hvert hverfa minningarnar.

Og þar sem ég stóð þarna í bókabúðinni og fletti bókinni rifjaðist upp fyrir mér það andartak þegar hin góða kona Mamie leit upp frá morgunverðarborði fjölskyldunnar og sá á augabragði að litli strákurinn frá Íslandi var að laumast við að gefa hundinum ristað brauð undir borði og hún brosti bara svo góðlega til mín um leið og hún hristi höfuðið örlítið og gaf mér til kynna án orða að ég skyldi klára að gefa hundinum brauðsneiðina fyrst ég var byrjaður en svo ekki gera það aftur.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!