Fimmtudagur 24.04.2014 - 16:50 - FB ummæli ()

Þegar ferðamennirnir fara

Ég man þegar Íslendingar ætluðu að verða ríkir á fiskeldi.

Fiskeldisstöðvar spruttu þá upp hvar sem hægt var að koma þeim fyrir í sjónum.

Það fór eins og það fór.

Næst man ég að Íslendingar ætluðu að verða ríkir á loðdýraeldi.

Þá var allt í einu komið minkabú í hvern krók og kima.

Það fór líka eins og það fór.

Svo ætluðum við að verða rík á bankaviðskiptum og hlutabréfabraski.

Úff, þarf nokkuð að rifja upp hvernig það fór?

Nú ætlum við öll að verða rík á útlenskum ferðamönnum.

Hér í miðbæ Reykjavíkur eru túristaíbúðir og smáhótel í nánast hverju húsi, og fullt af stórum hótelum og ennþá fleiri að rísa út um allt.

Þetta minnir óneitanlega á minkabúin og fiskeldisstöðvarnar.

Og við ætlum að græða heil ósköp, þótt þegar séu komin á loft merki þess að við séum um það bil að fara frammúr okkur.

Eins og þessi frétt hér um að verðið á gistingu hér sé orðið svo hátt að heiðarlegum ferðamönnum blöskri peningaplokkið.

Ég held það sé orðið tímabært að við förum að hugsa mjög alvarlega okkar gang.

Með fullri og djúpri virðingu fyrir íslenskri náttúru, þá er hún ekki svo stórkostleg og einstök að ferðamenn muni til lengdar láta bjóða sér hvaða okur sem er.

Þeir eru farfuglar og við gætum dottið úr tísku jafn hratt og við komumst í tísku um árið.

Ferðamenn koma hingað að sjá lítt snortna náttúru, en hana munu þeir eins geta upplifað í Kanada, sums staðar í Bandaríkjunum, á Grænlandi, í Noregi, norðurhluta Svíþjóðar, Finnlandi, Rússlandi … að ég nefni ekki Nýja-Sjáland.

Og ef þeim finnst að hér sé bara verið að arðræna þá, þá fara þeir frekar þangað.

Tala nú ekki um ef um hina meintu ósnortnu náttúru okkar verður búið að leggja raflínur um allt – jafnvel um sjálfan Sprengisand.

Þá fara þeir bara.

Ég held við verðum að fara að hugleiða þennan möguleika.

Við gætum setið eftir í nýbyggðu rándýru hótelunum okkar og pressað handklæði allan liðlangan daginn en það kemur aldrei neinn.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!