Laugardagur 03.05.2014 - 09:27 - FB ummæli ()

Fótgönguliðarnir hans Gunnars Braga

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn lýstu skýrum vilja til þess fyrir ári að þeir vildu ekki að Ísland gengi í Evrópusambandið.

En jafn skýrt var að þjóðin ætti að hafa síðasta orðið um hvort umsóknin fræga yrði dregin til baka.

Með því að ætla sér að draga umsóknina til baka án þjóðaratkvæðagreiðslu hafa Bjarni Benediktsson, Sigmundur Davíð og Gunnar Bragi því gerst ósannindamenn – sem gerir þá að ómerkilegum stjórnmálamönnum.

En ekki bara þeir leiðtogarnir – heldur líka allir þeir fótgönguliðar í þingflokkunum tveim sem ætla að taka þátt í að ganga gegn bæði skýrum vilja þjóðarinnar og eigin kosningaloforðum.

Þau eru ekki bara „traustur þingmeirihluti“ Gunnars Braga og Sigmundar Davíðs og Bjarna Benediktssonar, einhver grár andlitslaus massi.

Þau eru líka einstaklingar með samvisku.

Willum Þór Þórsson er ekkert stikkfrí.

Valgerður Gunnarsdóttir getur ekkert afsakað sig með því að hún sé bara að hlýða fyrirskipunum.

Elsa Lára Arnardóttir verður að eiga það við samvisku sína hvort hún vill í upphafi stjórnmálaferils, sem án efa gæti orðið langur og glæstur, ganga í berhögg við augljósan vilja þjóðarinnar sem réði hana til þingstarfa.

Brynjar Níelsson verður að gera upp sig hvort honum finnist í rauninni lýðræðislegt að þjóðin fái ekki sjálf að taka þá mikilvægu ákvörðun sem hér um ræðir eða hvort hann ætlar glaðbeittur að eltast skottið á Gunnari Braga í málinu.

Jóhanna María Sigmundsdóttir þarf að íhuga hvernig hennar orðspor í pólitík á að verða.

Þetta snýst nefnilega ekki bara um þrjá fjóra ofstækisfulla foringja.

Þetta snýst líka um fótgönguliðana sem ætla bersýnilega bara að gera það sem þeim er sagt.

Skítt með kosningaloforð.

Skítt með vilja þjóðarinnar í skoðanakönnunum.

Skítt með mótmælafundi á Austurvelli.

Skítt með 56.000 undirskriftir.

Og það sem verst er:

Skítt með heilbrigða skynsemi sem hlýtur þó að segja hverjum ærlegum manni að svona mikilvæga ákvörðun eins og um ESB á ekki að taka nema hafa allar upplýsingar í höndunum – það er að segja fullbúinn samning.

En þau Willum Þór, Valgerður, Elsa Lára, Brynjar og Jóhanna, þau ætla bara að segja skítt með þetta allt og líka skítt með heilbrigða skynsemi.

Við ætlum öll að gera eins og Gunnar Bragi Sveinsson leggur okkur fyrir, segja þau.

Það eitt er rétt, segja þau.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!