Laugardagur 10.05.2014 - 15:10 - FB ummæli ()

Við eigum rétt

Eins og mál líta út núna virðist sem stór hluti af hinu dularfulla neyðarláni Seðlabanka Íslands til Kaupþings 6. október 2008 hafi endað í skattaskjóli í Karíbahafi.

Hinu „dularfulla“ neyðarláni segi ég, vegna þess að heimildum ber nú saman um að öllum, og ekki síst Seðlabankanum hafi átt að vera fullkomlega ljóst þegar þarna var komið að Kaupþingi yrði ekki bjargað.

Og að þetta væri eins og að henda peningum út í loftið.

Sem og kom á daginn.

Gallinn er sá að þetta voru ekki prívatpeningar Davíðs Oddssonar og annarra bankastjóra Seðlabankans. Þá hefðu þeir auðvitað mátt taka með þeim hvaða vitfirringslegu áhættu sem þeim sýndist.

Þetta voru peningarnir okkar.

Milljarðatugir sem glötuðust með einni skyndiákvörðun Davíðs og félaga í hádeginu þennan örlagaríka dag.

Við höfum lengi vitað af því að til er upptaka á samtali aðalbankastjóra Seðlabankans og Geirs Haarde þar sem þeir ræða þetta „lán“ til Kaupþings.

Við höfum viljað fá að heyra samtalið en okkur hefur hingað til verið sagt að það komi okkur ekki við.

Núna gengur það ekki lengur.

Ef við eigum ekki rétt á því að fá að vita með hvaða furðulega hætti sú ákvörðun var tekin að fleygja milljarðatugunum okkar út um gluggann, þá er lítils virði að búa í þessu samfélagi.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!