Föstudagur 30.05.2014 - 09:07 - FB ummæli ()

Önnur lögmál

Nú eru efstu menn Framsóknarflokksins að troða í spínatinu með því að reyna að halda því fram að raunverulegt áhugamál þeirra sé fátækt fólk í Reykjavík.

Þó var það alveg skýrt hjá Sveinbjörgu oddvita þeirra í upphaflegri yfirlýsingu þeirra að það átti að taka lóðina frægu af múslima af því hér sé þjóðkirkja.

Það kom fátæku fólki ekkert við.

Enda er auðvitað engin glóra í því að lóð handa trúarsöfnuði komi á nokkurn hátt í veg fyrir byggingu leiguíbúða fyrr fátækt fólk.

Guðfinna Jóhanna, númer tvö á listanum, hefur þó verið iðin við að halda þessu fram.

Ég spurði hana að því á Facebook um daginn hvernig hún kæmi þessu heim og saman.

Hún gat auðvitað ekkert komið því heim og saman, og eftir stuttar en kurteislegar umræður okkar um þetta eyddi hún þræðinum þar sem þetta var til umræðu.

Svo sendi hún mér skilaboð, þar sem hún sagðist því miður hafa eytt þræðinum áður en ég byrjaði að kommentera á hann.

Samt höfðum við bæði látið þar orð falla – auk þess sem Ólafur F. Magnússon kom við sögu.

Hvernig hægt er að kommentera á Facebook-þræði sem búið er að eyða, það veit ég ekki.

Annaðhvort var Guðfinna Jóhanna að ljúga þessu, eða önnur eðlisfræðilögmál gilda í Framsóknarflokknum en annars staðar.

Ég væri reyndar alveg til í að trúa því síðarnefnda.

Guðfinna Jóhanna er frambjóðandinn sem fékk á sig harða gagnrýni frá ungliðum Framsóknarflokksins og svaraði með orðinu:

„Krúttlegt.“

En skömmu síðar var líka búið að eyða þeim þræði.

En kannski var búið að því áður, maður veit greinilega aldrei með Framsóknarflokkinn.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!