Sunnudagur 01.06.2014 - 07:22 - FB ummæli ()

Útvarp Saga hefur eignast stjórnmálaarm

Jæja – stór sigur Samfylkingar undir forystu Dags B. Eggertssonar í Reykjavík gekk eftir.

Þegar til lengdar lætur eru það auðvitað þau tíðindi úr Reykjavík sem skipta mestu máli.

Til lukku, Dagur, þetta var vel að verki staðið.

Nú í morgunsárið viðurkenni ég hins vegar fúslega að mér þykir súrt í broti að Framsóknarflokkurinn skuli hafa náð tveimur mönnum inn – og að því er virðist helst á kostnað Bjartrar framtíðar sem fékk töluvert minna fylgi en kannanir höfðu sýnt.

Og hinn nýi Framsóknarflokkur fordómanna sýnir sitt nýja andlit með sigri hrósandi yfirlýsingum hinna nýju borgarfulltrúa um að fyrsta verk þeirra verði að leggja fram tillögu um að svipta múslima lóðinni undir mosku sína.

Þó það sé margbúið að sýna fram á að það sé ekki hægt.

Hafi leikið einhver minnsti vafi á um út á hvað hinn nýi flokkur gengur, þá er sá vafi nú úr sögunni.

Einu sinni var Framsóknarflokkurinn stjórnmálaarmur Samvinnuhreyfingarinnar.

Nú hefur Útvarp Saga eignast stjórnmálaarm.

Það er augljóst að þær árásir sem Framsóknarflokkurinn sætti fyrir umbreytingu sína yfir í pópúlískan flokk útlendingaandúðar virkuðu öfugt á nokkurn hluta Reykvíkinga.

Stór stjórnmálaflokkur, flokkur forsætisráðherra landsins, keyrir sína kosningabaráttu á að efla fordóma í garð 400 manna söfnuðar í Reykjavík, sem aldrei hefur gert nokkrum manni nokkurn hlut.

Flokkurinn er hirtur fyrir opinberlega af fjölda manns, meira að segja af nokkrum hugrökkum sálum innan úr eigin röðum, en svo og svo margir borgarbúar bregðast þá við með því að fá samúð … ekki með þeim ofsótta, heldur með stjórnmálaflokknum.

Hrekkjusvínið á skólalóðinni á altso öruggan stað í hjarta þessara samborgara minna.

Það er ekki að öllu leyti viðfelldin tilhugsun.

Og kannski óviðfelldnast af öllu að fylgið virðist í svo miklum mæli tekið frá Bjartri framtíð, afsprengi Jóns Gnarr sem varði allri sinni borgarstjóratíð í að berjast óvægilega gegn fordómum – og með góðum árangri, héldum við.

Fróðlegt.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!