Miðvikudagur 04.06.2014 - 10:20 - FB ummæli ()

Vill Framsóknarflokkurinn þessa nýju ímynd?

Tvívegis síðustu vikuna hef ég verið sakaður um það opinberlega að styðja ódeyfðan umskurð stúlkubarna.

Já, og ekki bara styðja – heldur hefur því verið haldið fram að slíkar aðgerðir gleðji mig alveg sérstaklega.

Þetta gerðist á Facebook og blogginu, og ástæðan fyrir þessum ásökunum var sú að ég hafði gagnrýnt forkólfa Framsóknarflokksins fyrir að gefa útlendingaandúð undir fótinn með því að vilja svipta múslima á Íslandi þeim mannréttindum sem aðrir njóta.

Þá fékk ég sem sagt yfir mig daunilla súpu þar sem ég var sakaður um að styðja allt það versta og andstyggilegasta sem nokkrir múslimar hafa nokkru sinni tekið upp á í gegnum tíðina. Ég lét þetta að mestu yfir mig ganga, svolítið leiður þó, en þegar ég var semsagt sakaður um að vera sérstakur stuðningsmaður þeirrar svívirðu sem umskurður stúlkubarna er, þá var mér öllum lokið.

Og ég hugsaði með mér: Hverju er Framsóknarflokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar eiginlega búinn að sleppa lausu?

Annar þeirra sem sletti þessu framan í mig var stútungskarl sem ég hafði stundum tekið eftir í athugasemdum internetsins. Hann virtist dálítið forkostulegur íhaldskurfur, skammaði mig stundum nokkuð harkalega fyrir að tala ekki af tilhlýðilegri virðingu um Davíð Oddsson en var hreint ekki dónalegur.

Nú var hins vegar eins og runninn væri á hann berserksgangur. Alls konar furðuleg fúlmennska um múslima fór að buna upp úr honum. Og endaði, fyrir mína parta, með fyrrnefndri ásökun um að ég væri augsýnilega stuðningsmaður hinna viðbjóðslegustu ofbeldisverka gegn smástúlkum af því ég hefði vogað mér að anda á Sveinbjörgu Birnu Sveinbjörnsdóttur og Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur.

Hann var ekki einn á ferð, þessi maður.

Ég hygg að allir þeir sem tóku í sama streng og ég á samskiptamiðlum og bloggi hafi mátt reyna eitthvað svipað undanfarna tíu daga. Allt í einu fylltust allir þræðir og síður af andsvörum og athugasemdum frá fólki sem lítið hafði borið á fram að þessu.

Fáeinir reyndu að vera málefnalegir, þótt þeim veittist reyndar ótrúlega erfitt að skilja að moskumálið snýst um þau grundvallarmannréttindi sem við viljum að samfélag okkar sé byggt á – en hvorki um skipulagsmál né álit okkar á einum trúarbrögðum frekar en öðrum.

En aðrir – og því miður voru þeir ófáir – opinberuðu sig sem hatursfulla rasista og ekkert annað. Víst höfðu forkólfar Framsóknarflokksins verið gagnrýndir hástöfum. En jafnvel harkalegasta gagnrýnin sem framsóknarmenn urðu fyrir komst ekki í hálfkvisti við þann sora sem nú var fiskaður upp úr dýpstu ræsunum til að sletta framan í þá sem gagnrýndu.

Samanber þær ásakanir sem ég varð fyrir, að ég styddi þessi grimmdarverk gegn smástúlkum.

Ég reyni að kveinka mér ekki sérstaklega undan því. Ég þykist að vísu síst eiga þetta skilið, enda hef ég aldrei verið stuðningsmaður íslams sem mér finnst persónulega alveg ámóta órökrétt og stundum skaðleg eins og öll önnur trúarbrögð. Og ég skal viðurkenna að það fauk í mig að vera sakaður um að styðja ofbeldisverk gegn börnum.

En mergurinn málsins er samt aðallega þessi:

Með því að gefa útlendingaandúðinni undir fótinn hafa forkólfar Framsóknarflokksins sleppt lausum nokkrum ansi ógeðfelldum og ofstopafullum rasistum* sem hingað til hafa sýnt sóma sinn í að láta ekki mikið á sér bera opinberlega.

Af því þeir vissu að það var þegjandi samkomulag um það í samfélagi okkar að skoðanir þeirra ættu ekki upp á pallborðið.

Og við myndum fordæma það afdráttarlaust ef þeir hefðu sig um of í frammi.

Núna er hins vegar kátt í bæ hjá rasistum þessa lands. Þeir voru á góðri leið að leggja undir sig útvarpsstöð, núna telja þeir sig vera búnir að eignast stjórnmálaflokk líka.

Í þessu liggur ábyrgð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur og Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur.

Mér dettur ekki í hug að halda því fram að þau persónulega séu rasistar. En með hátterni sínu hafa þau fært einhverja ógeðfelldustu þætti samfélagsins upp á yfirborðið, úr skúmaskotunum þar sem þeir þrifust áður.

Þau hafa gefið forstokkuðum rasistum rödd, lögmæti og jafnvel stolt.

Og ekki bara þau þrjú. Líka allir þeir framsóknarmenn aðrir sem ekki rísa upp og mótmæla því að flokkurinn leggist í svo hræðilega lágkúrulegar atkvæðaveiðar eins og nú var gert.

Eygló Harðardóttir, Karl Garðarsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Willum Þór Þórsson og þau hin í þingflokki Framsóknarflokksins: Af hverju mótmæla þau ekki? Vilja þau sitja uppi með ábyrgðina?

Eru atkvæðin svo sæt að það skipti þetta fólk engu þótt á bak við sum þeirra séu fúlustu pyttir samfélagsins?

Þar sem nú kraumar allt af gleði yfir því að loksins hafi verið tekið mark á þeim!

Ég ítreka: Í þessu liggur ábyrgð Framsóknarflokksins. Vill hann fara þessa leið? Vill hann þessi atkvæði? Vill hann þessar raddir?

Vill hann þessa nýju ímynd sem rasistarnir dragast nú að eins og mý að mykjuskán?

 

 

 

*) Það er auðvitað spurning hvort nota eigi orðið rasistar um þá sem hatast við fólk tiltekinna trúarbragða, fremur en tiltekinna kynþátta – hvað sem það orð nú þýðir. En til hagræðingar nota ég það samt hér.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!