Fimmtudagur 12.06.2014 - 09:17 - FB ummæli ()

Þegar allir hefðu átt að vera að vanda sig

Uppistandið eftir dóminn í Aurum-málinu gerir mig eiginlega fyrst og fremst hryggan.

Þetta er svona mál þar sem maður hugsar (og dæsir við): Getum við þá ekki gert neitt rétt?

Yfirleitt hef ég passað mig á því að hafa ekki opinbera skoðun á málaferlum út af eftirköstum hrunsins.

Ástæðan er einfaldlega sú að ég skil ekki þá „fjármálaverkfræði“ sem þar liggur að baki og hef ekki þrek til að setja mig inn í hana.

Þaðan af síður ræð ég við lagakrókana sem fylgja sögunni.

Og ég tek sérstaklega fram að ég hef alls enga skoðun á Aurum-málinu í sjálfu sér eða sýknudómunum þar.

Hef hreinlega ekki kynnt mér það af neinu viti.

En í þessu máli er leikmanni þó óhætt að gera eftirfarandi athugasemdir.

 

1.

Hvernig í ósköpunum datt Sverri Ólafssyni í hug að taka að sér dómarastörf í máli sem var og er að sumu leyti sambærilegt við mál sem sami saksóknari hafði höfðað gegn bróður hans?

Nú má vera að samkvæmt vanhæfisreglum réttarkerfisins teljist Sverrir ekki vanhæfur í skilningi laga. En þetta er jafn furðulegt fyrir því. Af hverju var hann að þessu?

Svo mikið er víst að aldrei í lífinu hefði ég tekið að mér svona dómarastörf, og þykist þó síst heilagri en hver annar.

 

2.

Hvernig gat dómsformanni, sem Sverrir hafði þó sóma til að segja frá tengslum sínum við Ólaf, dottið í hug að þetta mundi þykja eðlilegt? Í risavöxnu máli sem dómsformaður gat fullvel vitað að yrði grandskoðað bæði fyrr og síðar með smásjá, hvernig datt honum í hug að gefa þvílíkan höggstað á starfi sínu og meðdómara sinna?

 

3.

Það verður líka að setja stórt spurningamerki við að sérstakur saksóknari skuli ekki hafa vitað af ættartengslum meðdómarans og Ólafs Ólafssonar. Hvort sem ættartengslin skipta miklu máli eða jafnvel engu máli, þá er vissulega með hreinum ólíkindum að saksóknari hafi ekki vitað af þessu.

Sumir lögmenn halda því fram leynt og ljóst að sérstakur saksóknari sé bara að ljúga því að hann hafi ekki vitað þetta.

Ég held að það sé engin ástæða til að ætla það.

En hitt er eiginlega alvarlegra í sjálfu sér – að hann hafi ekki vitað það.

Hvers lags leynilögga er sérstakur saksóknari ef þetta rann ekki upp fyrir honum einhvern tíma allan þann tíma sem réttarhöldin stóðu yfir?

Eða allir hans starfsmenn?

Í landinu þar sem „allir þekkja alla“.

Úff.

 

4.

Svipuðum spurningum má reyndar varpa fram til fjölmiðla.

Þetta var mál sem þeir fylgdust flestallir mjög grannt með.

Af hverju uppgötvaði enginn þeirra þetta?

Ég ítreka – ég veit ekkert hvort þessi ættartengsl hafi valdið sjálfkrafa vanhæfi Sverris.

En þetta var svo sannarlega mjög forvitnileg staðreynd, og full ástæða til að vekja á henni athygli.

En engum fjölmiðli virðist hafa dottið í hug að kanna – jafnvel ekki einhvern tíma á degi þegar lítið var að gera og það þurfti að fylla upp í fréttasíðurnar með allskonar uppfyllingarefni – jafnvel þá datt engum þetta í hug: Hei, hverjir eru eiginlega þessir meðdómarar í Aurum-málinu? Kannski ástæða til að eyða tíu mínútum í að kanna það …

En engum fjölmiðli datt þetta í hug.

 

5.

Og svo eru það orð Sverris eftir dómsuppkvaðninguna.

Þau eru auðvitað alveg forkastanleg, eins og margir hafa haft orð á.

Þau virðast gefa til kynna þvílíka heift út í sérlegan saksóknara að það er með öllu ómögulegt að sú heift hafi kviknað bara eftir réttarhöldin, það er að segja þegar saksóknari fór almennum orðum um ættartengsl Sverris og Ólafs – sem hann var þá loksins búinn að uppgötva!

Nei, heiftin í orðum Sverris var svo mikil (því svona tala dómarar ekki nema það sé algjörlega gengið fram af þeim) að það gefur skýrt og greinilega til kynna að skoðun hans á saksóknara hafi lengi verið til staðar.

Og hafði það þá áhrif á niðurstöðu hans í réttarhaldinu?

 

Þetta eru spurningar, ég tek það fram. Ég hef ekki forsendur til að komast að niðurstöðu um þær. En það eykur ekki trú manns á réttarkerfið og samfélagið almennt að slíkar spurningar skuli vakna í risastóru máli þar sem allir hefðu átt að vera að vanda sig.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!