Föstudagur 13.06.2014 - 22:14 - FB ummæli ()

Hinn gáfulegi fótbolti Hollendinga

Fyrsta heimsmeistaramótið í fótbolta sem ég man eftir var mótið 1974 sem var haldið í Vestur-Þýskalandi.

Þjóðverjar áttu gott lið, sem stóð að lokum uppi sem sigurvegari, en engum blandaðist hugur um að hollenska liðið var í rauninni töluvert betra.

Með Johan Cruyff í broddi fylkingar, einn allra mesta töffarann í hópi fótboltamanna.

Fjórum árum seinna vildi Cruyff ekki spila í Argentínu, sem þá var undir grimmum járnhæl herforingjastjórnar, en jafnvel án hans komst hollenska liðið alla leið í úrslitaleikinn.

Svo komu allnokkur mögur ár fyrir Hollendinga, en í lok níunda áratugar eignuðust þeir allt í einu aftur alveg frábært lið: Gullitt, Van Basten, Riikaard, Koeman, síðan Bergkamp.

Af einhverjum ástæðum komst þetta lið aldrei í almennilegt skotfæri við heimsbikarinn.

Síðan hafa Hollendingar stundum átt mjög fín lið, og góð hollensk fótboltalandslið einkennir alltaf það sama: Einhver furðulega afslappaður kraftur sem getur látið lítið á sér kræla langtímum saman en brýst svo gjarnan fram með fáránlega flottum en líka svo áreynslulausum hætti, einnig fágun og gáfur … já, gáfur.

Allt þetta var boðið upp á í fótboltaleiknum frábæra í kvöld.

Leik sem verður lengi í minnum hafður.

Fyrirtaks árétting þess af hverju heimsmeistaramótið í fótbolta getur verið svo skemmtileg keppni.

Og kannski getur þetta hollenska lið náð því sem Cruyff og Van Basten og Bergkamp tókst aldrei.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!