Þriðjudagur 09.09.2014 - 13:39 - FB ummæli ()

Ég ætla ekki að segja upp DV

Ég ætla ekki að segja upp áskriftinni minni að DV.

Ég lít svo á að blað af því tagi sem DV hefur verið að undanförnu sé nauðsynlegt og íslensk fjölmiðlaflóra væri miklum mun óskemmtilegri án þess.

Þótt Reynir Traustason hafi verið öflugur og áberandi sem karakter blaðsins og nokkrir fleiri mjög góðir starfsmenn séu nú hættir störfum, þá er best að gefa blaðinu áfram séns.

Ég þekki Hallgrím Thorsteinsson að góðu einu, veit að hann vill vel og að ennþá eru mjög færir starfsmenn á DV.

Ég ætla því sem sagt að sjá til.

En eitt get ég þó ekki stillt mig um að taka fram.

Hinir nýju stjórnarherrar blaðsins – Sigurður G. Guðjónsson og Þorsteinn stjórnarformaður – þeir ættu að panta sér nú þegar námsskeið í mannlegum samskiptum.

Látum vera aðfarir þeirra við að ná völdum á blaðinu.

En yfirgangsfullur hroki þeirra beggja eftir að sigri var náð – hann var voða mikið fimm ára.

Að mæta skellihlæjandi með hatt niður á ritstjórnarskrifstofur DV daginn eftir fundinn örlagaríka – fannst þér það voða þroskað, Sigurður G.?

Og einmitt það rétta sem maður átti að gera starfsfólki sem var ringlað og sumt í sárum?

Eða pratið um „faglegu rannsóknina“ … þarf að hafa um það einhver orð?

Má maður leyfa sér að vona að þetta hafi verið „fall er fararheill“ syndrómið?

Ég vona altént í einlægni að þeim Sigurði G. og Þorsteini takist vel upp við að stýra blaðinu fjárhagslega, en umfram allt að þeir muni láta Hallgrím og hans fólk í friði við að skrifa blaðið.

Verði ég var við annað, þá mun ég þó auðvitað strax segja upp blaðinu; það segir sig sjálft.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!