Þriðjudagur 30.09.2014 - 16:44 - FB ummæli ()

Var fleirum raðað á ríkisjötuna?

Bæði DV og Fréttablaðið lentu í ólgusjó fyrir skömmu þegar eigendavald og ritstjórnarhagsmunir virtust vegast á, en upp á slíkt er aldrei skemmtilegt að horfa.

Auðvitað er ekki komin löng reynsla á nýja yfirmenn á ritstjórnum blaðanna, og best að bíða með að fella einhverja endanlega dóma þar um.

En efni í báðum blöðunum í morgun bendir sem betur fer til þess að þau hafi ekki endilega skaðast til langframa af þessum róstum.

DV hefur – þvert ofan í það sem ýmsir spáðu – alls ekki hætt að skrifa um lekamál Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, og í dag er í blaðinu ágæt og þörf samantekt á því hvernig ráðandi öfl í samfélaginu eru nú farin að herða tök sín með því að gagnrýna hart og jafnvel grafa markvisst undan eftirlitsaðilum þeim, sem eiga að gæta einmitt þeirra sömu afla.

Það er eitt helsta hlutverk fjölmiðla að hafa ætíð vakandi auga með slíkum ráðandi öflum – og samantektin er góð.

Hún opnar vonandi augu einhverra fyrir því sem er að gerast.

Fréttablaðið sýnir hins vegar metnað með forsíðufrétt um fyrirtæki sem þegið hefur milljónatugi af ríkinu síðustu fimm árin fyrir einhverjar rannsóknir á æskulýð landsins.

Fyrirtækið er í eigu konu sem var innsti koppur í búri Sjálfstæðisflokksins, aðstoðarmaður Davíðs Oddssonar og fleiri ráðherra á fyrri tíð.

Eins og allir vita, þá prédika sjálfstæðismenn gjarnan opinberlega um vonsku ríkisins en dásama einkarekstur.

Svo raða þeir sér á ríkisjötuna.

Sjálfstæðisflokkurinn dreif í að skrifa undir þennan samning við konuna í janúar 2009, þegar fyrirsjáanlegt var orðið að flokkurinn væri að hrökklast frá eftir hrunið.

Ætli fleiri flokksgæðingum hafi einmitt um þær mundir verið raðað á ríkisjötuna?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!