Þriðjudagur 21.10.2014 - 20:06 - FB ummæli ()

Hverjum skal treysta?

Í dag hringdi til mín maður og sagði mér sögu.

Sanna sögu.

Hann hafði verið að keyra yfir heiði að vetrarlagi – nýlega.

Og keyrði framhjá tveimur stúlkum sem höfðu lent í vandræðum, misst bílinn sinn út af veginum.

Þær voru ómeiddar en nokkuð kaldar og hraktar.

Lögreglubíll kom aðvífandi.

Lögreglumennirnir voru úr almennu löggunni á svæðinu, og voru hinir hjálplegustu við stúlkurnar.

Ekkert undan því að klaga.

Fyrr en maðurinn stakk upp á því við lögreglumennina að þeir toguðu bíl stúlknanna upp á veg aftur.

Þeir þvertóku fyrir það.

Af hverju? Voru þeir ekki með kaðal?

Jú, þeir voru með kaðal.

Af hverju þá? Voru þeir svona latir, eða illmenni?

Nei, alls ekki. Þeir hefðu einmitt endilega viljað draga bíl stúlknanna upp á veg svo þær gætu haldið áfram ferð sinni.

En þeim var stranglega bannað af sínum yfirmönnum að gera þvíumlíkt.

Ástæðan var sú að við slíkar aðfarir getur það hent – sjaldan, en það getur hent – að bíllinn sem reynt er að draga verður fyrir tjóni.

Og yfirmenn lögreglumannanna vildu ekki að almennir lögreglumenn tækju þá áhættu að fara út í aðgerðir sem gæti kostað tryggingatjón.

Maðurinn spurði þá lögreglumennina:

„Hva, eruð þið ekki fullfærir um að meta hvenær einhverjar líkur eru á að eitthvert tjón verði ef þið standið frammi fyrir því að draga bíl?“

Og annar þeirra svaraði:

„Jújú, við gætum það vel. En yfirmenn okkar treysta okkur bara ekki til þess. Ef tjón verður, þá verðum við sjálfir að borga það. Og því er okkur einfaldlega alveg bannað að gera nokkuð af þessu tagi.“

Ég gleymdi að spyrja hvað orðið hefði um stúlkurnar tvær. En tilgangur mannsins með því að segja mér þessa sögu kom í ljós að lokum.

Þá spurði hann mig:

„Ef almennum lögreglumönnum á löggubílunum sínum er ekki treyst til að taka ákvörðun um hvort draga skuli bíl eða ekki, hvernig stendur á því að það á að treysta þeim til að taka ákvörðun um að beita hríðskotabyssum?“

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!