Þriðjudagur 21.10.2014 - 16:50 - FB ummæli ()

Þetta er ekki lengur fyndið

Vitiði, nú er þetta hætt að vera fyndið.

Reyndar tek ég bara svona til orða – þetta hefur aldrei verið fyndið.

Stjórnsýsla þessarar ríkisstjórnar er, sýnist mér, sú versta hjá nokkurri ríkisstjórn á seinni tímum.

Örfá nýleg dæmi.

Sigurður Ingi Jóhannsson atvinnuvegaráðherra ákveður að flytja Fiskistofu út á land í algjörum flumbrugangi.

Og tuddast áfram með það af algjöru virðingarleysi við starfsfólk, góðar stjórnsýsluhefðir og almenna skynsemi.

Eygló Harðardóttir ákveður að flytja Barnaverndarstofu út á land í álíka flumbrugangi.

Þótt öllum megi vera ljóst að sú ákvörðun sé ekki tekin með hagsmuni þeirra í huga sem eru okkar mestu og bestu djásn: en það eru börnin.

Auðvitað er slíkur flumbrugangur í garð starfsmanna Fiskistofu og skjólstæðinga Barnaverndarstofu ekki fyndinn.

En ég tók sem sé bara svona til orða.

Það má halda því fram að það sé fyndið þegar forsætisráðherra tilkynnir öllum á óvart að beinagrind af stórum hval verði flutt á sýningarstað í kjördæmi hans, þótt enginn hafi verið spurður eða látinn vita og það sé ekki einu sinni pláss á Húsavík fyrir beinagrindina, en þótt þetta sé fyndið, þá er það líka dæmi um þá ömurlegu stjórnsýslu sem einkennir þessa ríkisstjórn.

En nú er mælirinn fullur.

Þessi ríkisstjórn ætlar að gera þá grundvallarbreytingu á íslensku samfélagi að héðan í frá verði almennir lögreglumenn ævinlega með vélbyssu innan seilingar, og þessa breytingu á að gera án þess að nokkur sé látinn vita – og án þess að nokkrar umræður fari fram um þetta gríðarlega mikilsverða mál í samfélaginu.

En þegar DV hefur upplýst um málið og menn eru að velta fyrir sér hvaðan byssurnar koma, þá er tilkynnt um það …

(Og haldið ykkur nú fast)

… Á FACEBOOK-SÍÐU AÐSTOÐARMANNS FORSÆTISRÁÐHERRA!

Þetta er stjórnsýsla ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.

Aðstoðarmaður forsætisráðherra hælist um á Facebook-síðu sinni að Norðmenn hafi gefið vélbyssurnar – og hí á ykkur og spæling á ykkur, þið þarna asnar, sem hélduð að við þyrftum að borga fyrir byssurnar.

En svo gáfu Norsararnir okkur þær bara, na-na-na-na!

Sem sagt, Norðmenn gefa íslensku lögreglunni 200 vélbyssur (af hverju???) og með þær stórmerkilegu upplýsingar er fyrst farið eins og mannsmorð, en síðan er því slett fram á Facebook af einhverjum pólitískum spunadoktor.

Fyrirgefiði – en þetta væri ekki fyndið þó það gerðist í Langburtístan.

Að þetta gerist á Íslandi er þyngra en tárum taki.

(Og svo kemur í ljós nokkru seinna að menn virðast að minnsta kosti tvísaga um hvort um gjöf eða kaup var að ræða.)

Mér finnst komið nóg.

Meira en nóg.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!