Fimmtudagur 23.10.2014 - 14:22 - FB ummæli ()

Heilaspuni

Það er klassískt bragð fasistastjórna um allan heim og á öllum tímum að magna upp ótta almennings við meira eða minna ímyndaðan óvin, sem engum sé treystandi til að fást við nema hinum hermannlegu fasistum með stjórnartaumana.

En þjóðin verði þá að sameinast um að fylgja sinni fasistastjórn fram í rauðan dauðann.

Ríkisstjórn Íslands er auðvitað ekki fasistastjórn, ég vil taka það mjög skýrt fram.

En þeim mun undarlegra er að stjórnvöld hér virðast ætla að þiggja þetta bragð úr brellubók fasista.

Nú á nefnilega allt í einu að telja okkur trú um að svo ógurleg yfirvofandi ógn steðji að okkur að nauðsynlegt sé að almenna löggan á Íslandi hafi sífellt við hendina hríðskotabyssur, jafnvel í hverjum einasta lögreglubíl.

Glæpamenn og hryðjuverkamenn séu nefnilega svo vel vopnum búnir.

Þetta er auðvitað bara bull.

Víkingasveitin hefur sinnt fullvel þeim verkefnum lögreglunnar þar sem grípa hefur þurft til vopna.

Og reyndar væri meiri ástæða til að huga betur að verklagsreglum hennar heldur en að koma fleiri byssum í hendur almennu löggunnar.

Ekki verður betur séð en stjórnendur víkingasveitarinnar (ekki óbreyttir víkingasveitarmenn) beri heilmikla ábyrgð á hörmungaratburðinum í Árbæ síðastliðinn vetur þegar maður var drepinn af lögreglunni. Víkingasveitarmenn á vettvangi áttu líf sitt að verja, en til þessarar stundar átti aldrei að þurfa að koma.

Ef ekki tókst betur til en þetta þessa hörmungarnótt í Árbænum þegar hin þrautþjálfaða víkingasveit var á ferð (sem oftast hefur sinnt sínum verkum vel og snöfurlega), hvað getur þá hent ef hríðskotabyssur verða komnar í alla lögreglubíla og misvel þjálfaðir menn í misgóðu sambandi við misvel undirbúna yfirboðara eiga að taka skyndiákvörðun um hvort byssum skuli beitt?

Eða þegar skapofsamenn innan lögreglunnar eru með byssu innan seilingar?

Því skapofsamenn eru til innan lögreglunnar.

En það sem ég vildi sagt hafa:

Víkingasveitin hefur dugað hingað til, og það eru engin teikn á lofti um að vopnaburður glæpamanna sé að aukast.

Engin.

Af hverju er því þá haldið stíft að okkur – til að réttlæta hríðskotabyssurnar 150 eða 200 eða hvað þær eru?

Af hverju þarf svona margar?

Hver ákvað þessa tölu? Hvernig var hún fundin út? Hver mat þörfina?

Það hversu talsmenn byssuvæðingar lögreglunnar eru á hálum ís má vel sjá hjá hinum ljóngáfaða Vilhjálmi Árnasyni alþingismanni Sjálfstæðisflokksins.

Hann þvaðrar þessa vitleysu um að bófar landsins séu orðnir svo þrælvopnaðir að löggan verði að bregðast við og koma sér upp þessum hríðskotabyssum.

En svo ræðst hann harkalega á fjölmiðla og alþingismenn sem skýra frá málinu og finnst ástæða til að ræða það.

Þeir ættu að skammast sín.

Og á útvarpi Sögu í morgun mun hann hafa skammast blóðugum skömmum yfir því að hríðskotabyssueign löggunnar væri upplýst í fjölmiðlum.

Af hverju?

Af því að nú hafa glæpamennirnir fengið fregnir af því!

Hann hefur sem sagt búist við því að hinir (meintu) þungvopnuðu glæpamenn myndu ekki fatta það að lögreglumennirnir væru komnir með hríðskotabyssur líka!

En núna – fyrst þeir eru búnir að frétta af þessu – hvað eru glæpamennirnir að gera þá?

Jú – Vilhjálmur Árnason hefur sannfrétt að bófarnir hafi skotið á fundi og ákveðið að nú verði þeir að koma sér upp byssum til að svara byssueign löggunnar.

En var ekki byssueign þeirra einmitt kveikjan að byssuvæðingu löggunnar?

Hvaða ansans heilaspuni er þetta?

Er nema furða að það læðist að manni sá grunur að allar þessar vélbyssur sé fyrst og fremst ætlaðar til að hafa hemil á mannfjölda en ekki fámennum hópum glæpamanna?

Fyrst röksemdirnar fyrir byssuvæðingunni eru allar í þessu skötulíki.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!