Mánudagur 17.11.2014 - 23:26 - FB ummæli ()

Skítsama

Þetta er ræða sem ég flutti á Austurvelli laust upp úr klukkan fimm síðdegis nú áðan.

– – –

Komiði sæl.

 

Ég las það á netinu um daginn að forsætisráðherra Íslands stæði þessa dagana frammi fyrir alvarlegu og mjög erfiðu vandamáli. Og af því ég má aldrei neitt aumt sjá, þá fór ég að kynna mér málið. Hvað er það, sem er svona erfitt fyrir Sigmund Davíð? Er það Hanna Birna?

 

Er það ráðherra sem hefur sagt bæði þinginu og þjóðinni ósatt, sem hefur skipt sér af lögreglurannsókn á sínu ráðuneyti, sem hefur ekki vitað eða minnsta kosti ekki þóst vita, um alvarlegt lögbrot sem framið var af nánasta aðstoðarmanni sínum, lögbrot sem felst í að valdamenn brutu á fólki sem ekki gat með nokkru móti borið hönd fyrir höfuð sér – er það altso vandamál Sigmundar Davíðs að hann er með slíkan ráðherra í ríkisstjórn sinni, og allir vita uppá Hönnu Birnu skömmina, og allir vita líka að í almennilegum ríkjum hér í nágrenninu, þá væri svona ráðherra löngu búinn að taka pokann sinn, en af því Bjarni Benediktsson félagi Sigmundar Davíðs í ríkisstjórninni hefur af einhverjum dularfullum ástæðum ákveðið að það skipti meira máli að Hanna Birna fái ráðherrakaupið sitt í einn mánuð enn, og þurfi ekki að axla sjálfsagða ábyrgð – siðferðilega ábyrgð, ef ekki lagalega – af því að Bjarni og allir sjálfstæðismenn telja sig nú nauðbeygða að gala: “Nei, það er allt í lagi með Hönnu Birnu, við treystum henni!” þá telur Sigmundur Davíð sig ekkert geta gert, er það hans vandamál, þetta erfiða vandamál sem hann á við að stríða?

 

Nei – þetta er reyndar ekki vandamál Sigmundar Davíðs.

 

Honum er skítsama um þetta.

 

Hann er bara ofsalega ánægður með Hönnu Birnu, og myndi helst vilja tvær eða þrjár í stjórninni sinni.

 

En hvað er þá vandamálið sem Sigmundur Davíð stendur frammi fyrir? Er það að nú er komið í ljós að kosningaloforðið stóra er einhvern veginn eins og að hrynja inní sig, einsog svarthol – í fyrsta eru það engir „erlendir hrægammasjóðir“ sem eiga að borga brúsann, í öðru lagi er brúsinn miklu minni en hann lofaði, í þriðja lagi er það kannski ekkert sérstaklega smekklegt við þær aðstæður sem nú ríkja í samfélaginu að fólk með milljónir á mánuði í laun skuli fá pening úr ríkissjóði, frá okkum öllum, þegar vantar peninga svo víða – er það vandamál Sigmundar Davíðs að þetta er allt saman að renna upp fyrir honum, eins og okkur?

 

Nei, það er ekki vandamálið, honum er skítsama.

 

Mér fannst reyndar eitt merkilegt. Um daginn heyrði ég Sigmund Davíð taka sér í munn orðið réttlæti, held ég bara í fyrsta sinn, síðan hann varð forsætisráðherra. Og hvað var það sem honum fannst réttlátt?

 

Var það eitthvað um jafnrétti, var það eitthvað um jöfnuð í samfélaginu, var það eitthvað um heilbrigðisþjónustuna, var það eitthvað um hvernig við eigum að búa að unga fólkinu og okkar minnstu bræðrum og systrum, var það eitthvað af þessu sem loksins kveikti orðið „réttlæti“ í munni Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.

 

Nei, það var ekkert af þessu, honum er skítsama um allt þetta – eftir því sem ég best fæ séð.

 

Nei, það sem kveikti orðið réttlæti í huga hans í Kastljósi, það var sú skoðun hans að ríka fólkið ætti líka að fá „leiðréttinguna“.

 

Loksins fann Sigmundur Davíð eitthvað sem honum fannst réttlætismál – og þá var það þetta.

 

En vandamálið, sem ég las á netinu að hann stæði frammi fyrir, það var sem sagt ekki þetta „réttlætismál“.

 

En hvað þá?

 

Er hann kannski farinn að átta sig á að það var kannski ekkert sniðugt, að þegar stjórnin hans tók við fyrir einu og hálfu ári, þá rauk hún strax til og lækkaði veiðigjöld sægreifanna – og sleppti auðlegðarskattinum, þótt framhald hans í soldinn tíma hefði getað fært sárþjáðu samfélaginu nauðsynlegar tekjur?

 

Er þetta vandamálið?

 

Nei, þetta er ekki vandamál, Sigmundi Davíð er skítsama um þetta – svona vill hann einmitt hafa það, og þeir Bjarni báðir – þeir vilja vera ríkisstjórn ríka fólksins af því þeir eru báðir ríkir, og það er semsé þeirra eina réttlætismál að ríka fólkið fái soldið meiri pening úr ríkissjóði, ef það græðir ekki nóg af sjálfu sér.

 

Vandamálið, já, er það kannski stjórnarskráin? – er það vandamál að íslenska þjóðin samþykkti með tveimur þriðju hlutum atkvæða að tiltekið stjórnarskrárfrumvarp skyldi verða grundvöllur að nýrri stjórnarskrá – frumvarp sem myndi þegar hafa fært okkur betri og opnari stjórnsýslu, jafnan atkvæðisrétt, betri vernd umhverfisins og sameign á auðlindum – er það vandamálið sem Sigmundur Davíð stendur frammi fyrir að hann hefur áttað sig að það er auðvitað svívirða að virða svo að vettugi skýran vilja þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu?

 

Nei, stjórnarskráin er ekki vandamálið. Sigmundi Davíð er skítsama.

 

Og Bjarna er líka skítsama – þeim finnst þetta alls ekki vera vandamál, sægreifarnir vinir þeirra vilja náttúrlega ekki fá skýrari ákvæði um auðlindir í þjóðareign – ussusvei, held nú ekki.

 

Er vandamál Sigmundar Davíðs þá hitt að ríkisstjórn hans er svo einkennilega illa mönnuð að þar verður allt að klúðri? Ráðherrarnir eru skeytingarlausir um skólakerfið, um heilbrigðiskerfið, um umhverfismál, um almannatryggingar, og svo framvegis. En það sem þeir gera – því klúðra þeir.

 

Þarf ég nokkuð að nefna hríðskotabyssur sem dæmi?

 

Er þetta klúður, er þetta skeytingarleysi það vandamál sem Sigmundur Davíð stendur nú frammi og reynir allt hvað af tekur að leysa?

 

Nei, þetta er ekki vandamálið, honum er skítsama. Honum er skítsama um voða margt, honum er skítsama og flýtir sér útúr þinghúsinu þegar þingmenn stjórnarandstöðu ætla að fá að segja eitthvað um hans hjartans mál, honum er skítsama um stjórnarandstöðuna og honum er skítsama um lýðræðislega umræðu – eða réttara sagt, honum er ekki skítsama um lýðræðislega umræðu, heldur er hann beinlínis á móti henni.

 

Loftárásir, þið munið?

 

En vandamálið hans? Er það þá að ennþá skuli algjörlega skorta stefnu í efnahagsmálum, í gjaldmiðilsmálum, í peningamálum – er það vandamálið að við sitjum nú eftir hér á Íslandi, ekki hálfdrættingar á við frændur okkar og frænkur á Norðurlöndum hvað snertir lífskjör og almenn lífsgæði, er það vandamálið – nei, honum skítsama um það líka.

 

Heilbrigðiskerfið, ég er búinn að nefna það, er það vandamálið að læknar og hjúkrunarfólk er orðið svo desperat að flestir sem vettlingi geta valdið ráða sig til starfa í útlöndum, en hér stefnir í rústir einar – er það vandamálið?

 

Nei, Sigmundi Davíð er skítsama, því ef hann þyrfti einhvern tíma að fara á spítala þá gæti hann alltaf farið til útlanda – hann er ríkur – og það eru engir maurar á spítölunum þar, og þar eru meira að segja læknar líka!

 

Er það þá vandamálið að eftir hrunið – sem við héldum að yrði til þess að samfélag okkar yrði þrátt fyrir áfallið betra en áður, heilbrigðara og manneskjulegra – að þá stefni þvert á móti í harðneskjulegra Ísland en verið hefur um langt langt skeið: misrétti eykst, græðgi og sérplægni er aftur gefið undir fótinn, yfirstéttin er aftur farin að belgja sig og okkur alþýðunni er ætlað að góna uppá hana með aðdáun og tilbeiðslu í svipnum, þetta er það samfélag sem ríkisstjórn ríka fólksins er að takast á ótrúlega skömmum tíma að byggja hér upp – nema Sigmundur Davíð og Bjarni, þeir taka sér reyndar aldrei í munn orðið samfélag, þeir vilja helst, held ég, láta fella það burt úr tungunni, og þeir byggja ekkert upp, þeir rífa bara niður.

 

Svo ekki er þetta vandamál Sigmundar Davíðs, honum er skítsama.

 

Honum er líka skítsama – eða ekki verður að minnsta kosti betur séð – um að unga fólkið okkar er um það bil að fá nóg, læst hér í viðjum hafta og ónýtrar krónu, læst hér í ólýðræðislegu klíkubandalagi hagsmunablokka hinna betur stæðu og þeirra sem réttu hafa samböndin, þar sem lýðræðislegur vilji er að engu hafður, ef það hentar ekki ríkisstjórn ríka fólksins.

 

Um allt þetta er Sigmundi Davíð skítsama.

 

En vandamálið hans – jú, ég skal segja ykkur það, það kom fram í Viðskiptablaðinu náttúrlega – vandamál forsætisráðherra Íslands núna er að hann getur ekki gert upp við sig hvort hann á heldur að kaupa – eða réttara sagt, láta okkur kaupa fyrir sig tuttugu milljón króna Benz, eða tuttugu milljón króna BMW.

 

Þetta er vandamálið sem forsætisráðherra Íslands stendur frammi fyrir.

 

Ekki misskipting, ekki ónýtt heilbrigðiskerfi, ekki valdníðsla ráðherra sem tekur enga ábyrgð og gefur skít í almennilega stjórnsýslu og almennilegt siðferði, en ætlar að hanga eins og hundur á roði, eins og lúsugur hundur á roðtægju, á ráðherrakaupinu sínu og valdinu einn mánuðinn enn.

 

Þetta er vandamálið hans, og þeirra Bjarna og Hönnu Birnu og hinna ráðherranna, hvaða rándýra ráðherrabíl þau ætla að fá sér, eða við ætlum að kaupa undir rassinn á þeim, þar sem þau geta setið í þægindum, meðan við stöndum hér með öll okkar vandamál.

 

En það er í sjálfu sér kannski ekki vandamál fyrir okkur. Við stöndum þá hér eins lengi og við þurfum. Við þurfum ekki bara að losna við Hönnu Birnu, við þurfum að losna við alla þessa ríkisstjórn.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!