Föstudagur 19.12.2014 - 10:34 - FB ummæli ()

Stalín í Norður-Kóreu

Uppistandið í Bandaríkjunum út af kvikmyndinni The Interview er ótrúlegt.

Þetta virðist vera ósköp hefðbundin amerísk grínmynd, þótt hún fjalli reyndar um ögn óvenjulegt efni.

Tveir fréttamenn fá óvænt tækifæri til að fara til Norður-Kóreu og taka viðtal við Kim Jong-un einræðisherra, nýjasta laukinn í því furðulega ættarveldi sem þrífst í landinu.

Fréttamönnunum er svo falið af CIA að ráða þennan sérstaka óvin Bandaríkjanna af dögum.

Norður-Kóreumönnum er ekki skemmt, enda er greinilega gert stólpagrín að stjórnarfarinu í landinu.

En Bandaríkjamenn gera líka grín að sjálfum sér, eins og þeim er svo lagið – fréttamennirnir tveir virðast vera tilbrigði við viðkunnanlegu en fávísu og einföldu Ameríkanana sem kunnir eru úr ótal myndum.

Sem ramba um heiminn sem þeir hafa litla þekkingu á, svolítið eins og góðlegir fílar í glervörubúð.

Nú hafa tölvuárásir og hótanir Norður-Kóreumanna orðið til þess að hætt hefur verið við frumsýningu myndarinnar.

Það er fáheyrt, og vonandi verður myndin sýnd sem fyrst.

Burtséð frá því hvort The Interview er merkileg mynd eða ekki, þá gengur náttúrlega ekki að menn geti með hótunum um hryðjuverk komið í veg fyrir kvikmynd, bók eða hvaðeina annað í hinum frjálsa heimi.

Tala nú ekki um ef það er ömurlegasta einræðisríki heimsins sem stendur á bak við hótanirnar.

The Interview er svo kannski ekki galin kvikmynd, þótt það sé reyndar ekki aðalatriði málsins.

En í „trailernum“ sá ég að minnsta kosti einn svolítið fyndinn brandara.

Annar hinna fávísu amerísku fréttamanna er kominn í heimsókn til Kim Jong-un, sem sýnir honum stoltur dótið sitt.

„Og þarna er skriðdrekinn sem Stalín gaf afa mínum,“ segir Kim brosleitur í meira lagi og bendir á stríðstólið sitt.

„Aha,“ segir fávísi Ameríkaninn. „Við berum það reyndar fram S-t-a-l-l-o-n-e.“

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!